Freyr Eyjólfsson útvarpsmaður, sem búsettur er úti í Frakkalandi, er nýlega kominn þangað aftur eftir stutta dvöl á Íslandi. Og honum er brugðið.
„Ég bý í litlum frönskum smábæ þar sem fólk er ekki endilega alltaf að velta sér upp úr heimsfréttunum. Búinn að fara með börnin í skólann, skreppa í bakaríið og svona. Hvert sem ég fer, hvern sem ég hitti er til umræðu mál íslenska forsætisráðherrans. Viðkvæðið vanalega: "Jæja, Freyr minn, hvað er eiginlega að gerast þarna á Íslandi" Þetta er í ÖLLUM fjölmiðlum hérna, Frönskum, þýskum, svissneskum, spænskum, ítölskum. Ruglið og steypan að þetta sé nú allt saman eitthvert meiriháttar Rúv samsæri er sorglega hlægilegt og vandræðalegt.“
Þetta er ekki orðum aukið hjá Frey, en hann greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni; flestir fjölmiðlar heims fjalla nú um Íslands. Uppljóstrarinn Edward Snowden er meðal þeirra sem fylgist grannt með gangi mála og hann setti á twitter-síðu sína myndbrot, svokallað gif, sem vakið hefur mikla athygli. Þetta er brot úr alræmdu viðtali sem Kastljós birti í gærkvöld, þar sem sænski sjónvarpsmaðurinn Sven Bergman, tók viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem svo Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media blandaði sér inní. Með orðum Snowdens: Andartakið þegar forsætisráðherra áttar sig á því að blaðamennirnir hafi upplýsingar um að hann var að ljúga. („The exact moment Iceland‘s PM realizes journalist found his secret“)
The exact moment Iceland's PM realizes journalists found his secret: https://t.co/XUaUMVmIm9 #Cashljós #PanamaPapers pic.twitter.com/rp29gGGTp1
— Edward Snowden (@Snowden) April 3, 2016
Vísir greindi skilmerkilega frá því í gær frá því að „Fjölmiðlar um heim allan fjalla um félag Sigmundar og Önnu“
Stöðugt bætast í sarpinn, erlendir miðlar keppast við að fjalla um Ísland og líkast til er þetta athygli af því taginu sem fæstir kæra sig um. SVT Nyheter birtir frétt, myndbandstökur af áðurnefndu viðtali og fylgir henni úr hlaði með orðunum þeim að íslenski forsætisráðherrann feli milljónir í skattaparadís og hér flýr hann af vettvangi úr viðtali Uppdrags gransknings.

Í raun verður að segjast alveg eins og er að afar háðskur tónn litar umfjöllun erlendra miðla, ekki síst fjölmiðla á Norðurlöndum.
Sigmundur einn kynþokkafyllsti karlmaður landsins
Og öllum steinum er velt við og hér er frétt í sænskum fjölmiðlum sem fer fyrir brjóstið á mörgum. Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur vekur athygli á því, á sinni Facebooksíðu, að sænskir rannsóknarblaðamenn hafi grafið það upp að árið 2007 hafi Sigmundur Davíð verið kjörinn þriðji kynþokkafyllsti karlmaður landsins.

Það mun einmitt vera Ríkisútvarpið, þetta sem margir Framsóknarmenn telja að ofsæki Sigmund, sem einmitt stóð fyrir þessari kosningu. Jón Ólafsson tónlistarmaður fór með sigur af hólmi.