Fótbolti

Milan-goðsögn fallin frá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maldini lyftir Evrópubikarnum.
Maldini lyftir Evrópubikarnum. vísir/getty
AC-Milan goðsögnin Cesare Maldini lést í dag, 84 ára að aldri.

Maldini lék með Milan í 12 ár (1954-1966) og þjálfaði svo liðið um þriggja ára skeið (1972-74). Maldini varð fjórum sinnum ítalskur meistari sem leikmaður auk þess sem hann var fyrirliði fyrsta Milan-liðsins sem vann Evrópukeppni Meistaraliða árið 1963.

Sonur Cesare, Paolo, fetaði svo í fótspor föður síns en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu Milan og vann ótal titla með félaginu.

Cesare Maldini var aðstoðarþjálfari ítalska landsliðsins á árunum 1980-86 áður en hann tók við U-21 árs landsliðinu. Hann stýrði því um 10 ára skeið (1986-96) en á þeim tíma varð Ítalía þrisvar sinnum Evrópumeistari.

Maldini tók við ítalska A-landsliðinu eftir EM 1996 og þjálfaði það í tvö ár. Ítalía féll úr leik fyrir Frakklandi eftir vítaspyrnukeppni í 8-liða úrslitum á HM 1998.

Maldini stýrði svo Paragvæ á HM 2002 áður en hann sneri aftur til Milan þar sem hann starfaði sem leikmannanjósnari.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur gefið það út að mínútu þögn verði fyrir alla leiki á Ítalíu í dag og á morgun til minningar um Maldini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×