Erlent

Sýknaður af ákæru um stríðsglæpi á Balkanskaga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vojislav Seselj tók í vikunni þátt í mótmælum í Serbíu eftir að dómstóllinn í Haag hafði dæmt Radovan Karadzic sekan um stríðsglæpi.
Vojislav Seselj tók í vikunni þátt í mótmælum í Serbíu eftir að dómstóllinn í Haag hafði dæmt Radovan Karadzic sekan um stríðsglæpi. Nordicphotos/AFP
Alþjóðlegi sakadómstóllinn í Haag sýknaði í gær Serb­ann Vojislav Seselj af ákærum um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni í Balkanskagastyrjöldunum á tíunda áratug síðustu aldar.

Seselj var náinn samstarfsmaður Slobodans Milosevic, forseta Serbíu, sem sjálfur var sakaður um stríðsglæpi en lést árið 2006 í fangaklefa í Hollandi, aðeins nokkrum mánuðum áður en réttarhöldunum yfir honum átti að ljúka.

Seselj var ákærður árið 2003 og gaf sig strax fram. Hann var sakaður um mörg alvarleg afbrot í stríði Serba við Bosníu-múslima og Króata á tímabilinu frá ágúst 1991 til september 1993.

Dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að saksóknurum í málinu hafi ekki tekist að sanna að Serbar hafi stundað víðtækar og kerfisbundnar árásir á aðra íbúa Króatíu og Bosníu.

„Sönnunargögnin, sem lögð voru fram og skoðuð, sýna þess í stað fram á að vopnuð átök hafi átt sér stað milli óvinahersveita sem almennir borgarar tóku þátt í,“ segir í úrskurðinum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×