Öryggisstofnanir Evrópuþjóða telja frekari árásir Íslamska ríkisins í Evrópu líklegar. Talið er að samtökin hafi sent fjölda vígamanna til Evrópu eftir árásirnar í Brussel í síðasta mánuði. Þá hafa viðvaranir borist við því að samtökin skipuleggi árásir á ferðamannastaði í Evrópu. Sambærilegar árásinni á strandhótel í Túnis í fyrra.
Þetta kemur fram á vef Sky News, þar sem einnig segir að forsvarsmaður Öryggisstofnunar Evrópu segist telja að ekki sé búið að handsama alla þá sem komu að árásunum í Brussel.
Salah Abdeslam, sem talinn er hafa komið að árásunum í París og í Brussel var handsamaður í síðasta mánuði eftir fjögurra mánaða leit. Þá voru fjórir grunaðir vígamenn handteknir í Danmörku og lagði lögregla hald á vopn í aðgerðum sínum. Sky vekur athygli á því að nöfn mannanna fjögurra sem handteknir voru í Danmörku hafi verið í skjalasafni ISIS sem lekið var til fjölmiðla í mars. Í þeim skjölum sagðist einn vígamaður hafa búið á Íslandi.
Þá segir á vef Telegraph að vígamenn ISIS skipuleggi efna- og kjarnorkuvopnaárásir í Evrópu. Þeir reyni að koma höndum yfir gereyðingarvopn.
