Lífið

Aðgerðarsinni með rauða spjaldið á lofti

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
ERNIR
Maríanna Clara Lúthersdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í hinum vinsæla söngleik Mamma Mia þar sem hún leikur vinkonu aðalsöguhetjunnar. Maríanna er, auk þess að vera leikkona og bókmenntafræðingur, mikill aðgerðasinni og hefur tekið virkan þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni undanfarna daga.

Þegar leikstjóri sýningarinnar Mamma Mia, Unnur Ösp Stefánsdóttir, bauð leikkonunni Maríönnu Clöru Lúthersdóttur að taka að sér hlutverk Rosie sem er önnur vinkvenna aðalsöguhetju söngleiksins var svarið „nei“ í byrjun.

„Þegar Unnur Ösp, vinkona mín og herbergisfélagi í Borgarleikhúsinu, var beðin um að leikstýra Mamma Mia var ég spennt fyrir hennar hönd en þegar hún bauð mér að leika Rosie sagði ég „nei, þú vilt fá einhvern annan í það, einhvern sem getur dansað og sungið!“ Hún hélt þessu þó til streitu og á endanum samþykkti ég að leyfa Jóni Ólafssyni, tónlistarstjóra sýningarinnar, að skera úr um hvort þetta myndi sleppa fyrir horn. Ég söng fyrir hann og hann hélt að það gæti komið skemmtilega út að hafa eina óþjálfaða rödd,“ segir Maríanna um tildrög þess að hún tók að sér hlutverk í þessum þekkta söngleik sem hefur slegið í gegn hér á landi sem annars staðar.

Maríanna hafði til að byrja með áhyggjur af söngnum en lýsir því hlæjandi að það hafi verið áður en byrjað var að æfa dansinn. „Þá kom í ljós að söngurinn var mín sterka hlið miðað við dansinn. Það vill svo heppilega til að þetta hlutverk snýst meira um kómík en stórkostlega takta í dans og söng en þó ég grínist með þetta þá lagði ég mig alla fram á æfingatímabilinu.“ Og æfingarnar hafa greinilega skilað sér því leikarinn Gunnar Hansson sem sat á næsta borði á meðan viðtalið fór fram skaut þarna inn í léttum dúr að Maríanna sé frábær dansari en það vakti mikla kátínu hjá Maríönnu sem þakkaði fyrir sig og hló.

Maríanna þykir eiga sérstaklega góðan sprett í einu atriði í Mamma Mia með Halldóri Gylfasyni en persónur þeirra fella hugi saman. „Þar heldur áfram samband okkar Dóra á sviði en persónur okkar í Línu Langsokk enduðu líka saman, þau Frú Prússólín og Klængur lögregluþjónn.“BORGARLEIKHÚSIÐ
Göfugt að gleðja

Leikhópurinn í Mamma Mia er að sögn Maríönnu vel valinn og þéttur. Hún segir að mikið mæði á hópnum þar sem sýningar séu sex til sjö sinnum í viku og margir með fjölskyldu og lítil börn heima. „Þó það sé erfitt að fara frá fjölskyldunni þá er alltaf skemmtilegt að koma í vinnuna og það eru ótrúleg forréttindi. Annað sem ég hef lært á þátttökunni í Mamma Mia er að það er mjög göfugt að gleðja fólk. Manni hættir kannski til að finnast Mamma Mia eitthvað léttvægt og froða eftir að hafa velt fyrir sér stóru hlutunum í lífinu, stöðu flóttamanna og núna þessu pólitíska fárviðri hér heima en þegar maður fær þessi miklu viðbrögð frá fólki í salnum eftir sýningar og jafnvel persónuleg bréf frá fólki þá fyllist maður auðmýkt og verður næstum því meyr yfir því að geta glatt fólk. Við getum létt fólki lund og stytt því stund og það er alveg jafn göfugt og hitt. Sem betur fer er pláss fyrir hvort tveggja í leikhúsinu og mér finnst heiður að fá að vera þarna og geta fengið fólk til að hlæja og hafa gaman,“ segir Maríanna.

Enginn rósrauður blær

Maríanna hefur starfað í Borgarleikhúsinu frá því 2013 en var hjá Þjóðleikhúsinu árið á undan. Hún ætlaði sér að verða leikkona frá því hún var barn. „Þetta lá alveg ljóst fyrir hjá mér en ég hafði samt alltaf mjög raunsæjar hugmyndir um leiklistina, að það væri ekki víst að þetta myndi ganga, ég myndi aldrei eignast peninga, og vinnutíminn væri erfiður. Þetta var og hefur aldrei verið sveipað neinum rósrauðum blæ heldur bara eins og ég bjóst við og komið hefur í ljós. Ég vissi alltaf að það að vera listamaður væri ekki ávísun á stórt hús og fínan bíl,“ segir hún og hlær.

Sjálfa af mæðginunum Maríönnu og Dýra.
Tvær ástríður í lífinu

Það hefur löngum verið sagt að ekki sé gott að hafa öll eggin í sömu körfunni og er Maríanna þeirrar skoðunar en auk þess að vera leikkona er hún menntaður bókmenntafræðingur og hefur starfað sem slíkur með leiklistinni. „Það er hins vegar ekki mikið svigrúm þegar vinnuálagið í leikhúsinu er eins og það er núna. Þar til nýlega var ég bókmenntaráðgjafi hjá Miðstöð íslenskra bókmennta sem var tveggja ára starf. Ég er líka í stjórn IBBY (The International Board on Books for Young People) á Íslandi sem eru samtök sem stuðla að og efla bókmenntir og menningu fyrir börn. Svo hef ég kennt í Háskóla Íslands síðustu fimm ár, kenni þar grunnkúrs í bókmenntafræði og vonandi geri ég meira af því í framtíðinni. Starfið í leikhúsinu er nú yfirleitt ekki endalaust þannig að ég reyni að halda bókmenntafræðinni lifandi, ég hef þessar tvær ástríður í lífinu sem fara mjög vel saman.“

Horfir á sjónvarp og heklar

Maríanna er gift tónlistarmanninum Ólafi Birni Ólafssyni og eiga þau fjögurra ára soninn Dýra. Hjónin kynntust í MR en byrjuðu ekki að vera saman fyrr en þó nokkrum árum eftir útskrift þaðan. „Þegar Maríanna er spurð að því hvort þau hjónin séu dæmigerðar miðbæjarrottur og listaspírur vefst svarið svolítið fyrir henni. „Manni finnst maður vera svo íhaldssamur og borgaralegur, alltaf heima hjá sér að horfa á breska sakamálaþætti og hekla en í samanburði við marga lifum við kannski bóhema­lífi. Erum aldrei heima á kvöldin og tökum barnið með okkur á tónleika og leiksýningar.“

Uppalin sem aðgerðasinnar

Auk þess að fara á tónleika og í leikhús með foreldrum sínum hefur Dýri litli tekið virkan þátt í mótmælum síðustu daga með móður sinni. Maríanna segist hafa verið alin upp sem aðgerðasinni og gengið Keflavíkurgönguna með foreldrum sínum. „Mér finnst eðlilegt að nýta á friðsaman hátt borgaraleg réttindi mín til borgaralegrar óhlýðni. Dýri hefur komið með á svo ótrúlega mörg mótmæli, hann veit alltaf hverju við erum að mótmæla, það er aldrei of snemmt að útskýra hluti fyrir börnum og ég ætla ekki að bíða með að segja honum hver mín gildi í lífinu eru þar til hann verður fimmtán ára en svo hefur hann auðvitað rétt til að taka sínar eigin ákvarðanir þegar fram líða stundir,“ segir Maríanna.

Dýri hefur mætt á Austurvöll til að mótmæla ríkisstjórninni ásamt móður sinni að undanförnu.
Of æst til að vera á þingi

Maríanna játar því af alhug að vera femínisti og að hún verði meiri femínisti með aldrinum. „Ég hafði miklar áhyggjur af því þegar ég var yngri að vera álitin leiðinleg og frek þannig að ég lét alls konar yfir mig ganga sem ég myndi aldrei gera í dag. Ég dáist að ungum konum í dag sem virðast vera upp til hópa miklu djarfari. Ég verð sjálf meiri femínisti með hverri bók sem ég les og hverri bíómynd sem ég sé. Áður voru hin frægu kynjagleraugu ekki komin upp. Ég hugsaði bara með mér að það væri leiðinlegt að konur skyldu ekki hafa skrifað neinar bækur eða gert listaverk eða uppgötvanir. Ég gerði mér ekki grein fyrir stóru myndinni, hvernig þessu var markvisst haldið frá konum og líka hinu að konur gerðu magnaða hluti en þeir rötuðu bara ekki inn í sögubækurnar. Núna sér maður þetta allt miklu skýrar, áttar sig á að enn er töluvert starf eftir hér á landi og þegar litið er til heimsins alls þar sem ástandið er víða skelfilegt. Ólíkt því sem sumir segja að við hér á Íslandi ættum ekki að kvarta af því við höfum það svo gott þá segi ég að einmitt við sem höfum raddir verðum að láta í okkur heyra. Við sjáum á öllu því sem hefur verið að gerast hér að undanförnu að við erum ekki einangruð lítil eyja í norðri heldur erum við í samtali við allan heiminn og það sem við segjum skiptir máli. Bæði fyrir okkur sjálf og aðra þannig að við erum í kjöraðstæðum til að láta gott af okkur leiða,“ segir Maríanna ákveðin.

Blaðamanni finnst hún á þessum tímapunkti farin að hljóma eins og upprennandi stjórnmálamaður sem eigi fullt erindi inn á þing og spyr því hvort leiðin liggi þangað í framtíðinni. Hlæjandi neitar hún því og segist ekki hafa nógu mikið jafnaðargeð til að geta starfað þar. „Ég myndi æsa mig of mikið upp. Ég styð frekar gott fólk til góðra verka þar og læt mér nægja í bili að vera með rauða spjaldið á lofti ásamt syni mínum á Austurvelli.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×