Innlent

Stefnt að gjaldtöku á bílastæðunum við Reynisfjöru

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Reynisfjara er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna hér á landi.
Reynisfjara er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna hér á landi. Vísir/Friðrik Þór
Bergrisi ehf. og Reynisfjara hafa gert með sér samning um uppsetningu á stöðumælastaurum á bílastæðinu við Reynisfjörur. Áætlað er að búnaðurinn verði tekinn í notkun í sumar. Gjaldtaka hefst þegar uppbygging á svæðinu hefur verið lokið á bílastæðinu. 

Hingað til hefur engin gjaldtaka verið á bílastæðunum við Reynisfjöru sem er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna hér á landi. Gert er ráð fyrir því að gjaldtakan verði allan ársins hring en hönnun stöðumælanna líkist stuðlabergi og mun þola þau veðurskilyrði sem eru við Reynisfjöru. Munu allir þeir sem ætla sér að fara í Reynisfjöru og leggja á bílastæðinu þurfa að greiða gjald fyrir það.

Það er félagið Bergrisi sem hannar stauranna sem eru byggðir á íslensku hugviti fyrir íslenskar aðstæður. Ætlunin er að gjaldtakan muni standa straum af kostnaði sem fellur til vegna uppbyggingar á svæðinu. Mikið hefur verið rætt á undanförnum vikum um öryggi í Reynisfjörum eftir að kínverskur ferðamaður lést þar í febrúar eftir að hafa lent í sjónum í fjörunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×