Erlent

Fimm daga helgi til frambúðar hjá opinberum starfsmönnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill raforkuskortur er í Venesúela
Mikill raforkuskortur er í Venesúela Vísir/Getty
Alls þurfa um tvær milljónir opinberra starfsmanna í Venesúela aðeins að mæta í vinnuna tvo daga í viku samkvæmt tilskipun frá yfirvöldum þar í landi sem glímt hafa við mikinn raforkuskort að undanförnu.

Starfsmennirnir sem um ræðir þurfa aðeins að mæta á mánudögum og þriðjudögum og því er helgin þeirra orðin að fimm daga helgi. Þeir sem gegna mikilvægum störfum mega þó einnig mæta í vinnuna á miðvikudögum beri brýna nauðsyn til.

Mikil þurrkatíð hefur geysað í Venesúela og illa hefur því gengið að fylla hin miklu uppistöðulón fyrir vatnsorkuver ríkisins en um 60 prósent af raforku Venesúela kemur frá vatnsorkuverum.

Ríkisstjórnin hefur hingað til reynt ýmislegt til þess að spara raforku, var öll starfsemi í ríkinu í reynd lögð niður í fimm daga yfir páskana. Þá var hver einasti föstudagur í apríl og maí gerður að frídegi.

Verslunarmiðstöðvar og hótel þurfa að framleiða sína eigin raforku í níu tíma á sólahring og framleiðslufyrirtæki hafa þurft að draga úr raforkunotkun um 20 prósent. Þá íhugar ríkisstjórnin að færa klukkana fram um 30 mínútur svo spara megi orku síðdegis.

Lesa má nánar um raforkukrísu Venesúela hér.


Tengdar fréttir

Taka rafmagnið af öllu Venesúela í fjóra tíma á dag

Stjórnvöld í Venesúela hafa ákveðið að taka rafmagnið af öllu landinu í fjóra tíma í senn frá og með næstu viku, til að takast á við vaxandi orkuvanda landsins. Ástandið mun vara í fjörutíu daga en ástæða orkuvandans eru miklir þurkar sem gera það að verkum að vatnsaflsvirkjanir landsins ná ekki að framleiða nægilega orku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×