Talið er líklegt að fugl hafi flogið inn í hreyfil á flugvél WOW air sem fljúga átti frá Varsjá í Póllandi nú í kvöld. Farþegar vélarinnar hafa verið fluttir á hótel. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi WOW air í samtali við Vísi.
„Þetta olli minniháttar skemmd sem verið er að laga. Það mun skýrast á næstu klukkutímum hvort það verði leigð ný vél eða hvort þessi verði löguð,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir.
Farþegum var í upphafi sagt að ferðinni hefði verið seinkað um tvo tíma áður en þau fengu upplýsingar um að hætt væri við flugið í bili. Samkvæmt upplýsingum frá farþega á staðnum áttu um 130 manns að fljúga með vélinni og er mikið um hópa af vinnustöðum í skemmtiferð.
Flug WOW frá Varsjá í kvöld frestast líklega vegna ævintýragjarns fugls
Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
