Lífið

Komust hjá reglum sem banna kvenmannsbrjóst á samfélagsmiðlum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Brjóstin á Henry mega sjást á Facebook ólíkt brjóstum allra kvenna í heiminum.
Brjóstin á Henry mega sjást á Facebook ólíkt brjóstum allra kvenna í heiminum.
Sniðug argentínsk samtök um brjóstakrabbamein komust hjá reglum sem banna það að kvenmannsbrjóst séu birt á myndum eða myndböndum á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Instagram með því að nýta í staðinn karlmannsbrjóst í kennslumyndbandi sínu. Myndbandinu er ætlað að kenna konum að skoða brjóst sín til þess að koma í veg fyrir að brjóstakrabbamein fái að grassera í lengri tíma komi það upp.

Myndbandið vakti gífurlega lukku og fékk 8 milljónir áhorfa á aðeins fjórum dögum. Það hefur verið þýtt á ensku og má sjá það hér að neðan.

„Kvenmannsbrjóst, sérstaklega geirvörtur kvenmanna, má ekki sýna á ákveðnum samfélagsmiðlum, ekki einu sinni þegar verið er að sýna hvernig á að rannsaka eigin brjóst til þess að geta greint brjóstakrabbamein á fyrstu stigum þess,“ segir í myndbandinu.

„En við fundum brjóst sem má sýna á samfélagsmiðlum: Brjóstin á Henry.“ Síðan er sýnt hvernig á að framkvæma brjóstaskoðun á eigin líkama á karlmannslíkamanum.

Samtökin heita MACMA og er myndbandið hluti af átaki þeirra um aukna meðvitund um brjóstakrabbamein sem er algengasta krabbamein í konum í heiminum. Karlmenn geta einnig fengið brjóstakrabbamein en það eru 100 sinnum minni líkur á því samkvæmt HuffingtonPost. Átak MACMA hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×