Sport

Eygló: Verður vonandi áfram gott

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir segir að hún sé ánægð með þann árangur sem hún náði á Íslandsmeistaramótinu í 50 m laug sem lauk nú síðdegis.

Hún var nálægt því að bæta metið sitt í 50 m baksundi í dag en stefnir frekar að því að bæta sína bestu tíma á EM í næsta mánuði.

Sjá einnig: Eygló nálægt Íslandsmetinu

„Þetta hefur verið skemmtilegt mót og ég hef náð að synda hratt. Bæði hraðar og ekki hraðar en ég bjóst við en miðað við hvar ég er stödd í mínum æfingahring þá er þetta mjög fínt,“ sagði Eygló en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Evrópumeistaramótið fer fram í London í næsta mánuði og Eygló miðar við að ná sínum bestu tímum þar.

„Ég vona að ég fari enn hraðar þá og nái að bæta mig. Þetta lofar góðu, held ég.“

Hún segir að árið hafi verið gott. „Ég hef náð að æfa vel og allt hefur gengið vel hingað til, að minnsta kosti. Vonandi heldur þetta áfram svona í allt sumar,“ segir hún.

Eygló fór í sundgreiningu í Frakklandi seint á síðasta ári og hefur unnið í að bæta tæknina sína út frá henni.

„Sami maðurinn og tók mig í greininguna mun koma til landsins í vor og þá fæ ég að vita hvort ég hafi náð að bæta tæknina. Það verður spennandi.“

„Ég vona að mér takist að halda áfram á þeirri braut sem ég hef verið á. Þá veit maður aldrei hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×