Innlent

„Íslenska rappsenan er tryllt"

Birta Björnsdóttir skrifar
Þættirnir nefnast Rapp í Reykjavík og verða sex talsins. Þeim er ætlað að taka púlsinn á því sem er að gerast núna, ekki fara yfir sögu rappsins á Íslandi.

„Við nenntum ekki í að fara rekja það að fyrsta derhúfan kom til landsins með Goðafossi heldur vildum við frekar taka hús á þeim sem eru að gera rapp í dag. Það eru þá margir sem hafa gert rapp í gegnum tíðina sem eru ekki með en þeir geta þá verið með í sagfræðiþættinum þegar hann verður gerður," segir DÓri DNA, þáttastjórnandi.

„Við erum bara að staldra aðeins við, berja á hús og spyrja hvað er í gangi hérna."

Leikstjórinn þurfti smá tíma til að átta sig á ágæti þeirrar hugmyndar að gera þætti um rapp á Íslandi.

„Þeir Mikael Torfason og Þór Birgisson komu upphaflega með þessa hugmynd til mín en mér leist ekkert allt of vel á það. Þar til ég fór á Secret Solstice og sá þar íslensku rappsenuna og hvað hún er tryllt. Ég sá allan þennan skara af íslenskum ungmennum sem kunnu hvern einasta texta við hvert einasta lag og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Ég fór því á fullt í þetta og bjallaði í rappapabba," segir Gaukur Úlfarsson og á þar við félaga sinn Dóra DNA.

„Ég var staddur á Akureyri þegar ég fékk símtalið um að til stæði að gera þætti um íslenskt rapp og ég spurður hvort ég vildi vera kynnir. Ég sagði já strax því ég dýrka þetta sem er í gangi í rappinu hér á landi," segir Dóri DNA.

Báðir eru þeir sammála um að kraftur og hæfileikar einkenni íslenska rappara.

„Við komum ekki öllum að í þáttunum sem við vildum og í raun er maður ekki fyrr búinn að snúa sér við en að nýr listamaður er kominn fram á sjónarsviðið," segir Gaukur.

„Það sem kom mér á óvart líka er hvað þetta eru duglegir, metnaðarfullir og klárir krakkar. Ég tek ofan fyrir hvað þau eru með allt sitt á hreinu og þau vita nákvæmlega hvað þau eru að gera," segir Dóri DNA.

Fyrsti þáttur af Rapp í Reykjavík er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 21.30 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×