Lífið

Gerólík verk en mynda fallega heild

Þrír af fjórum stjórnendum kóranna sem fram koma, þau Hákon Leifsson, Arnhildur Valgarðsdóttir og Julian Hewlett.
Mynd/Guðsteinn
Þrír af fjórum stjórnendum kóranna sem fram koma, þau Hákon Leifsson, Arnhildur Valgarðsdóttir og Julian Hewlett. Mynd/Guðsteinn
Það er dálítið sérstakt að smala kórum saman til að halda stórtónleika, við höfum ekki verið mikið í því en það er skemmtilegt. Þetta gæti verið liður í samstarfi sókna, ég held að hún Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti í Fella- og Hólakirkju, hafi átt frumkvæði að því. Hún kom líka með Óperukór Mosfellsbæjar inn í þetta, Julian Hewlett stjórnar honum, og fjórði kórinn er Vox populi, sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar,“ segir Hákon Leifsson, stjórnandi kórs Grafarvogskirkju. Hann lýkur lofsorði á söngkonur tvær sem sjá um einsönginn á tónleikunum, Kristínu R. Sigurðardóttur og Sigríði Ósk Kristjánsdóttur. „Kristín er með afar fallega rödd og hefur allt í þetta og sama er að segja um Sigríði Ósk, hún er alveg dásamleg.“ Það eru þrjú verk sem kórarnir flytja og Hákon segir þau öll mjög áheyrileg. „Kórverkin eru gerólík en mynda fallega heild,“ segir hann og lýsir þeim nánar. „Eitt þeirra er sálumessa eftir breska tónskáldið John Rutter, hann er svona hluti af elítunni í Bretlandi og samdi þessa sálumessu árið 1985. Hún er undurfögur enda hefur hún heillað áheyrendur hvarvetna. Hún er söngvæn og líka mjög aðgengileg fyrir fólk að hlusta á ef það kann að meta klassíska tónlist á annað borð.“ Annað glæsiverk tónlistarsögunnar sem kórarnir flytja er hin fræga Gloria eftir Antonio Vivaldi sem var samin á barokktímanum snemma á átjándu öld. „Það er bjart yfir þeirri tónlist, enda verkið samið til dýrðar guði,“ segir Hákon og nefnir þriðja verkið: „Það er Amore Mio eftir Julian M. Hewlett kórstjórnanda, sönglagaflokkur á ítölsku í fjórum þáttum, fluttur af Kristínu R. Sigurðardóttur og sönghópnum Boudoir.“ Hákon tekur fram að félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leiki undir ásamt Arnhildi og konsertmeistari sé Auður Hafsteinsdóttir. Tónleikarnir hefjast klukkan 16 í dag og miðaverð er 3.500 krónur. gun@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×