Körfubolti

Íslandsvinir vilja fá Hauk Helga til Danmerkur og Svíþjóðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Verður Haukur Helgi ekki aftur í grænu?
Verður Haukur Helgi ekki aftur í grænu? vísir/ernir
Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, er eftirsóttur á Norðurlöndum en þetta kemur fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag.

Haukur Helgi, sem spilaði með Njarðvík í Dominos-deildinni í vetur, er samningslaus og hefur mörg járn í eldinum en hann er eftirsóttur bæði innanlands sem utan.

Landsliðsmaðurinn greinir frá því sjálfur að sænska liðið BC Luleå, áður LF Basket, og danska stórliðið Bakken Bears hafi áhuga á að fá hann til liðs við sig.

Haukur Helgi spilaði með LF Basket tímabilið 2014/2015 en þjálfari liðsins er Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands. Þjálfari Bakken Bears er Spánverjinn Israel Martin sem kom Tindastóli í lokaúrslit Dominos-deildarinnar í fyrra.

BC Luleå tapaði í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra en Bakken Bears komst í lokaúrslitin þar sem það tapaði í oddaleik gegn Horsens.

„Ég býst nú við að Njarðvík vilji halda mér en við höfum ekkert rætt saman eftir að við enduðum mótið en við gerum það örugglega fljótlega,“ segir Haukur Helgi í viðtali við Morgunblaðið.

Haukur Helgi skoraði 17,9 stig að meðaltali í leik fyrir Njarðvík vetur, tók 7,5 fráköst og gaf 4,3 stoðsendingar en annað árið í röð tapaði liðið fyrir KR í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×