Lífið

Í viðræðum við stórar kvikmyndahátíðir

Guðrún Jóna Stefándóttir skrifar
Aðalleikararnir eru þeir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson.
Aðalleikararnir eru þeir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson. Ingibjörg Torfadóttir
„Hugmyndin að kvikmyndinni kviknaði fyrir um tíu árum og er byggð að hluta til á æskuárum mínum. Það er óhætt að segja að myndin sé blanda af skáldsögu og minni eigin reynslu frá æsku,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður, spurður út í hugmyndina á bak við myndina Hjartasteinn, sem er fyrsta kvikmynd Guðmundar í fullri lengd, en framleiðendur myndarinnar eru Anton Máni Svansson fyrir Join Motion Pictures ásamt Lise Orheim Stender og Jesper Morthorst fyrir danska félagið SF film Productions.

Hjartasteinn á sér stað yfir sumartíma í litlu sjávarþorpi á Austfjörðum og fjallar myndin um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina og tilfinningar sem fylgja því að þroskast og verða að manni. Tökur fóru fram í fyrrasumar á Borgarfirði eystri.

„Borgarfjörður eystri er alveg mögnuð náttúruperla, við erum alveg ótrúlega ánægðir með að hafa valið þann stað sem tökustað, bæði vegna þess hversu fallegur hann er, og vegna þess hversu mikla aðstoð við fengum frá heimamönnum sem voru boðnir og búnir að aðstoða okkur. Ferlið hefur gengið vonum framar, verið mjög krefjandi og skemmtilegt,“ segir Guðmundur og bætir við að stefnt sé á að klára eftirvinnslu myndarinnar í sumar og frumsýna hana á Íslandi í haust.

Leikhópurinn er alls ekki af verri endanum, en fjöldi upprennandi leikara fara með aðalhlutverkin og leika á móti nokkrum af bestu leikurum þjóðarinnar ásamt danska stórleikaranum Søren Malling, en hann lék meðal annars í hinum geysivinsælu spennuþáttum Forbrydelsen.

„Aðalleikararnir eru þeir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson, en einnig erum við með fjölda annarra hæfileikaríkra krakka í burðarhlutverkum sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndabransanum. Nína Dögg Filippusdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Gunnar Jónsson og Søren Malling fara svo líka með hlutverk í myndinni,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Arnar Guðmundsson kvikmyndagerðamaðurIngibjörg Torfadóttir
En hvernig stóð á því að Søren Malling fékk hlutverk í myndinni?

„Ég kynntist Søren þegar ég gerði stuttmynd í Danmörku fyrir nokkrum árum, hann lék í myndinni, en síðan þá höfum við verið góðir vinir. Hann er virkilega mikill fagmaður og frábært að vinna með honum,“ segir Guðmundur sem hefur gert tvær stuttmyndir sem fengu góðar viðtökur á erlendum kvikmyndahátíðum og hafa unnið fjöldann allan af verðlaunum.

Stuttmyndirnar tvær, Ártún og Hvalfjörður, hafa farið á yfir tvö hundruð erlendar kvikmyndahátíðir og sópað að sér verðlaunum, meðal annars hlaut Hvalfjörður sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2013.

„Út frá velgengni stuttmyndanna, hefur ferlið í kring um Hjartastein orðið mun auðveldara, bæði hvað varðar fjármagn og það að koma myndinni inn á kvikmyndahátíðir. En við erum nú þegar komnir í viðræður við stórar kvikmyndahátíðir þar sem við vonumst til að geta frumsýnt myndina,“ segir Guðmundur og bætir við að fram undan séu spennandi tímar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×