Erlent

Lamaður hæstiréttur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Á síðasta ári hlupu starfsmenn fréttastöðva til að verða fyrstir með fréttir af splunkunýjum úrskurði hæstaréttar í máli samkynhneigðra.
Á síðasta ári hlupu starfsmenn fréttastöðva til að verða fyrstir með fréttir af splunkunýjum úrskurði hæstaréttar í máli samkynhneigðra. vísir/EPA
Eftir að Antonin Scalia, dómari við hæstarétt Bandaríkjanna, lést í febrúar síðastliðnum hafa einungis átta dómarar setið í dómstólnum.

Barack Obama forseti var ekki lengi að bregðast við og útnefndi nokkrum vikum síðar nýjan dómara, Merrick Garland, mann sem víða er stuðningur við, líka úr röðum repúblikana.

Repúblikanaflokkurinn hefur hins vegar ekki viljað staðfesta útnefninguna, með þeim rökum að ekki sé rétt að forseti ráði dómaravali á síðasta ári sínu í embætti.

Þetta hefur svo orðið til þess að tvisvar frá fráfalli Scalia hefur meirihlutaniðurstaða hæstaréttar ekki fengist í mikilvægum dómsmálum.

Fyrst gerðist það í mars, nokkrum vikum eftir lát Scalia, að dómurinn féll á jöfnum atkvæðum, fjórum gegn fjórum, í máli sem varðaði verkalýðsfélög.

Undirréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu að verkalýðsfélögum væri heimilt að innheimta gjöld af ófélagsbundnu starfsfólki, enda væru gjöldin notuð til að standa straum af kjaraviðræðum sem kæmi þessu ófélagsbundna starfsfólki til góða ekki síður en félagsbundnu. Afstöðuleysi hæstaréttar varð til þess að dómur undirréttar stóð óhaggaður.

Aftur gerðist það svo á mánudaginn, 16. maí, að dómararnir átta sáu fram á að atkvæði í dómstólnum myndu falla jafnt, fjögur á móti fjórum. Þeir brugðu því á það ráð að vísa málinu aftur til neðra dómstigs, sem fær þá það verkefni að finna málamiðlun.

Það mál snýst um getnaðarvarnir og trúfrelsi. Trúaðir atvinnurekendur höfðu reynt að fá því hnekkt að atvinnutengdar heilbrigðistryggingar næðu til getnaðarvarna. Þeir vildu ekki láta sér nægja að geta sótt um undanþágu af trúarlegum ástæðum.

Frá því Scalia lést hefur fleiri málum fyrir hæstarétti lokið án afgerandi niðurstöðu í reynd, yfirleitt eftir að dómararnir hafa fallist á málamiðlun sem í raun breytti litlu um efnisatriði.

Dómstóllinn er því hálflamaður meðan beðið er eftir níunda dómaranum.

Dómararnir

Frjálslyndir vinstrimenn


Ruth Bader Ginsburg (frá 1993)

Stephen Breyer (frá 1994)

Sonia Sotomayor (frá 2006)

Elena Kagan (frá 2010)

Íhaldssamir hægrimenn

Anthony Kennedy (frá 1988)

Clarence Thomas (frá 1991)

John G. Roberts (frá 2005)

Samuel Alito (frá 2006)

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×