Erlent

Obama bauð Sigurð Inga velkominn á íslensku og grínaðist með #AskGuðmundur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Það eru greinilega margir á Íslandi sem heita Guðmundur,“ sagði Obama í gamansömum tón.
„Það eru greinilega margir á Íslandi sem heita Guðmundur,“ sagði Obama í gamansömum tón. Skjáskot
„Ég ætla að reyna að eins og ég get að bera þetta fram rétt: Tervetuloa, velkomin, velkomenn, välkommen,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti á nánast lýtalausum Norðurlandatungum þegar hann bauð ráðamenn Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands velkomna til Bandaríkjanna en þar eru þeir nú staddir í opinberri heimsókn.

Það var létt yfir Obama þegar hann hélt stutta tölu þegar tekið var á móti leiðtogum Norðurlandanna og minntist hann örstutt á mennsku leitarvélina Ask Guðmundur sem Inspired by Iceland setti af stað til þess að kynna Ísland sem áfangastað ferðamanna.

„Fyrir þá sem ætla að ferðast til Norðurlandana vil ég segja að þeir hafi ekkert að óttast. Mér skilst að Svíþjóð sé með símanúmer þar sem hægt er að tala við Svía. Ísland býður svo upp á að senda spurningar á #AskGudmundur. Það eru greinilega margir á Íslandi sem heita Guðmundur,“ sagði Obama í gamansömum tón. 

Sjá einnig: Obama gerði grín að skóm Sigmundar

Obama fór fögrum orðum um Norðurlöndin og þakkaði þeim fyrir stuðning við Bandaríkin í gegnum árin auk þess sem hann þakkaði þeim kærlega fyrir að finna upp nytsamleg tól á borð við Skype og Spotify sem hönnuð voru á Norðurlöndunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, er sem stendur staddur í Bandaríkjunum ásamt öðrum forsætisráðherrum Norðurlandanna á leiðtogafundi Norðurlandanna og Bandaríkjanna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, er einnig á fundinum.

Á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að fundurinn sé framhald fundar leiðtoga Norðurlandanna og Bandaríkjanna sem haldinn var í Svíþjóð árið 2013. Til umræðu verður samvinna Bandaríkjanna og Norðurlandanna á ýmsum sviðum alþjóða- og utanríkismála.

Sjá má ávarp Obama hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Obama gerði grín að skóm Sigmundar

"Það var mjög skemmtilegt að fá tækifæri til að sitja með honum í þrjá tíma og ræða málin,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×