Erlent

Býður upp byssuna sem hann notaði til að bana Trayvon Martin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mál George Zimmerman og Travon Martin var og er mikið hitamál í bandaríkjunum.
Mál George Zimmerman og Travon Martin var og er mikið hitamál í bandaríkjunum. Vísir/Getty
George Zimmerman, sem sumarið 2013 var sýknaður af ákæru um morð á Trayvon Martin, hefur sett byssuna sem hann skaut Martin með á uppboð. Málið vakti mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar á sínum tíma þar sem Zimmerman var sakaður um hatursglæp en hinn sautján ára gamli Travon var blökkumaður og óvopnaður. Washington Post greinir frá.

Um er að ræða níu millimetra skammbyssu sem auglýst er til sölu á vefsíðunni GunBroker.com. Zimmerman segist á síðunni vera stoltur af því að geta boðið vopnið til sölu. Byssan hafi komið honum vel þegar hann þurfti að berjast fyrir lífi sínu eftir hrottalega árás Trayvon Martin, eins og Zimmerman kemst að orði.

Fjölskylda Trayvon Martin var viðstödd réttarhöldin í Flórída sumarið 2013.Vísir/AFP
Zimmerman segir að ágóðinn af sölunni verði notaður til að berjast gegn ofbeldi gegn laganna vörðum. Ekki er útlistað nákvæmlega hvernig peningurinn á að nýtast í þeirri baráttu.

Málsvörn Zimmerman byggði á því að hann hefði skotið Martin í hjartað í sjálfsvörn. Zimmerman, sem stundaði nágrannavörslu í hverfi í Stanford í Flórída, tók það upp hjá sjálfum sér að elta Martin af því honum þótti hann grunsamlegur.

Niðurstaða kviðdóms í málinu var sú að Zimmerman væri með öllu saklaus, Martin hefði ráðist á Zimmerman og sá síðarnefndi skotið Martin í sjálfsvörn. Niðurstöðunni var mótmælt víða um Bandaríkin og var þess krafist að Zimmerman yrði dreginn fyrir alríkisdómstól. 


Tengdar fréttir

Zimmerman ákærður fyrir morð

George Zimmerman, sem skaut ungan dreng til bana í Flórída á dögunum hefur gefið sig fram. Zimmerman tók þátt í nágrannavörslu í hverfi sínu og þann 26 febrúar skaut hann unglingspiltinn Traycon Martin til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×