Erlent

Verður Sanders varaforsetaefni Clinton?

Birta Björnsdóttir skrifar
Vestur Virginía er nítjánda ríkið sem Bernie Sanders fer með sigur af hólmi í í kapphlaupinu við Hillary Clinton um að verða frambjóðandi Demókrata í væntanlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Kjörmennirnir sem til skiptana voru í kosningunum í gær voru hinsvegar ekki margir og enn munar það miklu á þeim að nánast ógjörningur er fyrir Sanders að hafa betur.

Nú þegar líklegast þykir að þau Donald Trump og Hillary Clinton leiði hvorn sinn flokkinn í komandi kosningum velta margir vöngum yfir mögulegum varaforsetaefnum þeirra.

Einhverjir stjórnmálaskýrendur gera að því skóna að Clinton hyggist mögulega sækjast eftir því að Bernie Sanders verði varaforsetaefni hennar og telja þessi orð hennar í sjónvarpsþættinum Face The Nation á sjónvarpsstöðinni CBSN á dögunum máli sínu til stuðnings.

„Ég sé mörg tækifæri fyrir hann og stuðningsmenn hans innan flokksins okkar. Ekki bara til að leggjast á árar við að vinna Donald Trump í kosningunum í nóvember heldur einnig halda áfram að berjast fyrir þeim gildum sem við trúum bæði á," sagði Hillary Clinton í umræddu viðtali.

Þó Sanders sé ekki búinn að leggja árar í bát segir hann þau Clinton eiga eitt sameiginlegt verkefni fyrir höndum.

„Við Clinton erum ósammála um margt en við erum þó sammála um eitt. Við verðum að bera sigurorð af Donald Trump," sagði Bernie Sanders.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×