Lífið

Með hendur í hári stórstjörnu

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hildur Boga Bjarnadóttir hárskeri þjónustaði leikkonuna frægu Sigourney Weaver.
Hildur Boga Bjarnadóttir hárskeri þjónustaði leikkonuna frægu Sigourney Weaver. Vísir/Vilhelm
„Þetta var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla, þetta kom þannig til að dóttir hennar hringir og pantar tíma hjá okkur, hún gefur bara upp nafnið sitt Charlotte Simpson, sem ég kannaðist ekkert við og bætir við að mamma hennar ætli líka að koma til að fá blástur, sem var hið besta mál. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri dóttir Sigourney Weaver og óhætt að segja að það hafi komið skemmtilega á óvart, enda er ég mikill aðdáandi hennar og hef séð fullt af kvikmundum sem hún leikur í,“ segir Hildur Boga Bjarnadóttir hárskeri en hún fékk þann heiður að þjónustu leikkonuna frægu, Sigourney Weaver.

Hildur hefur klippt hár frá því hún var lítil, og segist alltaf hafa haft áhuga á hárgreiðslu. Hún starfar á Reykjavík Hair á horni Hverfisgötu og Vitastígs og er virkilega ánægð í starfinu.

„Þegar ég var lítil var ég alltaf að klippa hárið á pabba, og eftir að ég kláraði menntaskólann hugsaði ég með mér að nú færi ég að læra eitthvað skemmtilegt. Ég fór strax í hárgreiðslu og hef unnið við það síðan ég útskrifaðist,“ segir Hildur, og bætir við að það hafi verið ótrúlega skemmtilegt að fá tækifæri að vera með hendurnar í hárinu á Sigourney Weaver.

Hildur Boga Bjarnadóttir, hárskeri ásamt Sigourney Weaver og dóttir hennar Charlotte Simpson.
Aðalástaða heimsóknar stórleikkonunnar var sú að dóttir hennar, Charlotte Simpson, er rithöfundur og hefur dvalið hér á landi og unnið að væntanlegri bók sinni. Fjölskyldan spókaði sig í borginni og virtist afar ánægð.

„Við slógum á létta strengi og þær voru báðar mjög skemmtilegar, Sigourney Weaver spurði mig mikið út í samfélag okkar og stjórnmál, en við vorum nokkuð sammála um að það væri frekar mikið vesen í þeim málum bæði hér og í Bandaríkjunum. Hún hafði virkilega góða nærveru og þær höfðu orð á því hversu fallegt landið okkar væri,“ segir Hildur og skellir upp úr og bætir við að hún hafa einnig gefið þeim fínar hugmyndir um afþreyingu í miðbænum.

„Ég lagði mikið upp úr því að vera fagmannleg og leyfði þeim að njóta sín og slaka á því það er auðvitað partur af því að koma í hárgreiðslu. Það var mikill heiður fyrir mig að fá að hafa hendurnar í hárinu á henni, hún talaði um hvað hún væri ánægð og fór sátt út í daginn með dóttir sinni,“ segir Hildur að lokum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×