Enski boltinn

Missir ekki bara af bikarúrslitaleiknum heldur líka af EM í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Ledley fagnar sæti á EM með Gareth Bale og markverðinum Wayne Hennesey.
Joe Ledley fagnar sæti á EM með Gareth Bale og markverðinum Wayne Hennesey. Vísir/Getty
Velski miðjumaðurinn Joe Ledley hjá Crystal Palace er fótbrotinn og spilar því ekki fótbolta á næstunni. Crystal Palace staðfesti alvarleika meiðsla hans í dag.

Joe Ledley varð fyrir meiðslunum í leik á móti Stoke City í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi eftir tæklingu frá Charlie Adam í liði Stoke. Heimasíða Crystal Palace segir frá.

Joe Ledley hafði komið inná sem varamaður í hálfleik en varð að fara af velli vegna meiðslanna aðeins ellefu mínútum síðar.

Það eru aðeins tveir dagar síðan að Chris Coleman, þjálfari velska landsliðsins, valdi Joe Ledley í 29 manna æfingahóp sinn fyrir Evrópumótið.

Það bjuggust flestir við því að Joe Ledley og Joe Allen myndu vera saman á miðju velska landsliðsins á EM í sumar en nú er ljóst að því verður ekki.

Framundan voru líka tveir viðburðarríkustu mánuðir Joe Ledley á ferlinum því áður en að EM byrjar mun lið hans, Crystal Palace, mæta Manchester United í úrslitaleik enska bikarsins á Wembley.

Joe Ledley er 29 ára gamall og hefur spilað með Crystal Palace     frá 2014. EM í fótbolta átti að vera fyrsta stórmót hans með velska landsliðinu en hann hefur spilað 62 landsleiki frá árinu 2005.

Hann hefur reyndar spilað bikarúrslitaleik áður en vorið 2013 vann hann skoska bikarinn með Celtic og skoraði meira að segja eitt markið í 3-0 sigri á Hibernian.

Joe Ledley missir því bæði af bikarúrslitaleik á Wembley og Evrópumótinu í Frakklandi vegna þessara meiðsla og hann sendir því Charlie Adam örugglega ekki jólakort í desember.

Joe Ledley eftir tæklinguna um helgina.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×