Handbolti

Þorgerður Anna heim í Stjörnuna og Hildigunnur í sterkt þýskt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildigunnur Einarsdóttir.
Hildigunnur Einarsdóttir. Vísir/Ernir
Handknattleikskonurnar Þorgerður Anna Atladóttir og Hildigunnur Einarsdóttir munu spila með nýjum félögum á næstu leiktíð. Þorgerður er á leiðinni heim úr atvinnumennsku en Hildigunnur kemst að hjá sterkara liði í Þýskalandi.

Morgunblaðið segir frá því morgun að Þorgerður Anna Atladóttir sé komin heim í Garðabæinn og að Hildigunnur Einarsdóttir hafi gert tveggja ára samning við þýska stórliðið HC Leipzig.

HC Leipzig-liðið er því áfram með Íslending innan sinna raða en Þorgerður Anna hefur verið hjá félaginu frá 2014 en lítið spilað vegna meiðsla.

Þorgerður Anna Atladóttir er að koma aftur í Stjörnuna eftir fimm ára fjarveru og mun spila með Stjörnunni í Olís-deild kvenna á næsta tímabili. Hún varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2008 og 2009 en fór til Vals 2011 þar sem hún spilaði í tvö tímabil.

Þorgerður Anna hefur síðan verið erlendis frá 2013, fyrst með norska liðinu Flint Tønsberg og svo með HC Leipzig þar sem hún missti fyrst mikið úr vegna axlarmeiðsla og svo sleit hún krossband þegar hún var nýkomin aftur.

Hildigunnur Einarsdóttir er lykilmaður í íslenska landsliðinu en hún hefur spilað með þýska b-deildarliðinu VL Koblenz/Weibern í vetur.

Það er mikil viðurkenning fyrir Hildigunni að HC Leipzig semji við hana en liðið spilar um komandi helgi hreinan úrslitaleik um þýska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×