Blikarnir Irma Gunnarsdóttir og Ingi Rúnar Kristinsson eru í forystu eftir fyrri daginn á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum sem fer fram á Selfossi og heldur áfram í dag.
Að loknum fyrri degi leiðir Irma Gunnarsdóttir úr Breiðabliki keppnina í sjöþraut kvenna með 2850 stig eða aðeins 8 stigum á undan Ásgerði Jönu Ágústsdóttur úr UFA sem er með 2842 stig.
Í karlaflokki er Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki efstur með 3656 stig. Ísak Óli Traustason úr UMSS er annar með 3278 stig og er Ingi Rúnar því í fínum málum fyrir seinni daginn.
Í flokki 16 til 17 ára pilta er Styrmir Dan Steinunnarson úr HSK/UMF-Selfoss fyrstur eftir fyrri dag með 3103 stig.
Í flokki pilta 18 til 19 ára pilta leiðir Guðmundur Karl Úlfarsson úr Ármanni með 3380 stig, en á hæla honum er Gunnar Eyjólfsson úr UFA með 3334 stig.
Keppni stúlkna 16 til 17 ára leiðir Sara Hlín Jóhannsdóttir úr Breiðabliki með 2536 stig.
Sport