Skoðun

Það sem við gerum best

Jens Garðar Helgason skrifar
Íslenskur sjávarútvegur er leiðandi í heiminum. Íslenskur sjávarútvegur er sá eini meðal ríkja OECD sem er nettógreiðandi til samfélagsins. Í öllum öðrum ríkjum OECD er sjávarútvegur meira og minna ríkisstyrktur eins og landbúnaður. Raunar er hann oft notaður sem eins konar aukabúgrein við ferðaþjónustu, tæki til að skapa líf í höfnum og skemmta túristum. Víða annar staðar er hann svo notaður nær eingöngu sem eins konar byggðatæki. Á Íslandi er reynt að koma til móts við þessar kröfur en við sem komum að sjávarútvegi á Íslandi erum stolt af því að hér á landi eru meiri og strangari kröfur gerðar til atvinnugreinarinnar.

Skilar samfélaginu miklu

Sjávarútvegsfyrirtæki eru meðal þeirra lögaðila sem greiða allra hæstu skatta til samfélagsins og það þótt veiðigjöld séu ekki talin með. Þegar þau eru tekin inn í myndina raða sjávarútvegsfyrirtæki sér í nær öll efstu sætin þegar kemur að skatttekjum samfélagsins; tekjum sem síðar eru notaðar til að standa undir kostnaði við rekstur samfélags okkar og velferðar. Reyndar er það svo að nær allar greiningar í heiminum benda til þess að þegar kemur að sjávarútvegi hafi okkur Íslendingum tekist betur en öðrum þjóðum við að skapa arðsama, nútímalega og sjálfbæra atvinnugrein.

Vel rekin atvinnugrein

Sjávarútvegur á Íslandi er þar fyrir utan sú atvinnugrein sem þykir best rekin á Íslandi og skapa mest verðmæti út frá sér. Ef rifjað er upp dæmi í skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company gerði í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um Ísland kom fram að einungis ein grein hafi viðunandi virðisauka fjármagns og vinnuafls – sjávarútvegur.

Í ljósi þessa má spyrja sig hvers vegna fiskveiðistjórn íslensku þjóðarinnar sé það kerfi sem sumir telja að helst þurfi að breyta á Íslandi. Íslenskur sjávarútvegur þykir nefnilega til marks um að Íslendingar geta gert vel þegar kemur að harðri alþjóðlegri samkeppni og skapað öfluga þekkingargrein.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí




Skoðun

Sjá meira


×