Viðskipti innlent

Kemur í ljós í júní hvort það takist að losa um aflandskrónurnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Stefán
Frumvarp um meðferð aflandskróna er skref í rétta átt að mati forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Hún segir þó mikilvægt að fagna ekki of snemma því það eigi eftir að koma í ljós hvort það takist að losa um aflandskrónurnar í útboði í júní.

Frumvarpið var samþykkt í gærkvöldi en það var lagt fram af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á föstudag og mikið kapp lagt á að afgreiða það fyrir opnun markaða í dag. Frumvarpið felur í sér að erlendum eigendum krónueigna er gefinn kostur á að fara út á lágu gengi ella verði krónurnar lagðar inn á vaxtalausa reikninga.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir þetta frumvarp, ásamt því að ná samningum við kröfuhafa gömlu bankanna, stórt skref í átt að því að losa um gjaldeyrishöftin hér á landi.

Sjá einnig: Bandarískir sjóðir telja frumvarp um aflandskrónur brjóta gegn eignarrétti

„Þegar kröfuhöfum gömlu bankanna voru kynntir þeir afarkostir sem stóðu þeim til boða, þá var í raun búið að semja við kröfuhafana um það að þeir ætluðu að borga stöðugleikaframlagið en ekki stöðugleikaskattinn, sem vitað var að væri einhver lagaleg áhætta fyrir ríkið,“ segir Ásdís.

„Núna liggur það hins vegar ekkert fyrir, þannig það mun í raun ekki koma í ljós fyrr en í júní hvernig þetta útboð gengur. Við viljum auðvitað sjá góða þáttöku en það mun ekki koma í ljós fyrr en þá.“

Ásdís segist ætla að stjórnvöld muni hefja frekari losun hafta á innlenda aðila í kjölfar útboðsins.

„Til þess að geta losað um höft á innlenda aðila, þá þurftum við að klára þetta útboð,“ segir hún. „Þannig að ég myndi halda að nú loks séum við á sjá fyrir endann á því haftaumhverfi sem við höfum búið við síðustu átta ár.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×