„Um helgina verður haldinn langþráður landsfundur þar sem við fáum tækifæri til að koma saman og ræða málin og af nógu er að taka. Við fáum einnig tækifæri til að velja fólk í stjórnir og embætti flokksins. Nú eru fjórir góðir frambjóðendur að bjóða sig fram til formanns og hef ég ákveðið að gefa kost á mér til embættis varaformanns flokksins,“ skrifar Margrét Gauja á bloggsíðu sína. Hún hefur verið dugleg að blogga hjá Pressunni að undanförnu og lætur sig þar varða hin ýmsu málefni.

Margrét Gauja hefur verið í tveggja ára hléi frá sveitastjórnarmálum en sem fyrr segir var hún bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Hún segir að augu sín hafi opnast eftir að hafa búið þennan tíma á Höfn í Hornafirði fyrirr því hversu mikið erindi Samfylkingarfólk á við fólkið í landinu. „..og ég vil leggja mitt lóð á þær vogarskálar að Samfylkingin verði á ný leiðandi flokkur og jafnaðarstefnan fái verðskuldaðan framgang í stjórnmálum landsins.“

„Ég gef kost á minni reynslu, sem almennur félagsmaður, kjörinn fulltrúi í Hafnarfirði síðustu 10 ár og sem varaþingmaður. Einnig hef ég fram að færa víðtæka menntun og reynslu af starfi með ungu fólki og sérþekkingu á valdeflingu og lýðræðismenntun.
Reynslan af því að búa í litlu samfélagi úti á landi sem ber öll merki þess að vera að breytast úr frumframleiðslusamfélagi í ferðamannabæ með öllu sem því fylgir hefur kennt mér margt. Ég hef einnig ágæta reynslu af því að byggja upp félag eftir fylgistap, og það er ekki gert nema með auðmýkt, virðingu, húmor og gleði.Ég hlakka til að eyða með ykkur næstu helgi og að finna að hjartað er ennþá á réttum stað. Þá eru okkur allir vegir færir,“ skrifar Margrét.