Viðskipti innlent

Með ýmis réttindi þegar flugi seinkar

Þórdís Valsdóttir skrifar
Flugrekendum ber að upplýsa farþega sína um réttindi þeirra ef til seinkana kemur.
Flugrekendum ber að upplýsa farþega sína um réttindi þeirra ef til seinkana kemur. Fréttablaðið/Vilhelm
Flugfarþegar hafa ýmis réttindi ef til seinkana kemur, ef flug eru yfirbókuð eða þeim aflýst. Réttindin miðast við lengd flugs og lengd tafarinnar. Í Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega er kveðið á um ýmis lágmarksréttindi sem flugrekendur eiga að virða.

Að sögn Þórhildar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, hefur vitneskja flugfarþega um réttindi sín farið sívaxandi. „Flugrekendur hafa ríka skyldu til að upplýsa farþega um réttindi sín,“ segir Þórhildur.

Ef flugið sem um ræðir fellur undir EES-reglur eiga farþegar alltaf rétt á þjónustu hjá viðkomandi flugfélagi. Það sem felst í réttinum til aðstoðar er að flugrekanda ber að bjóða farþegum endurgjaldslaust máltíðir, hressingu og hótelgistingu ef þörf er á.

Réttindin eru til staðar jafnvel þótt flugi sé frestað eða aflýst vegna orsaka sem teljast óviðráðanlegar, svo sem náttúruhamfara eða verkfalla. Farþegar geta einnig átt rétt á skaðabótum eftir atvikum. 

Ef flugi er aflýst geta farþegar átt rétt á því að fá flugfargjald sitt endur­greitt eða flugmiðanum breytt. Farþegar eiga einnig rétt á endurgreiðslu ef seinkun á flugi er orðin fimm klukkustundir eða meira.

Upphæð skaðabóta vegna seinkana er frá 35 þúsund krónum, þegar um er að ræða flug sem er 1.500 km eða styttra, upp í 83 þúsund krónur þegar vegalengdin er yfir 3.500 km. Þó skal nefna að ef seinkun er ekki á ábyrgð flugfélagsins eru ekki líkur á því að farþegar eigi rétt á skaðabótum.

„Til að kanna réttindi sín og mögulegar bætur eiga flugfarþegar að leita beint til þess flugrekanda sem þeir flugu með eða þjónustu­aðila hans,“ segir Þórhildur og bætir við að ósáttir farþegar geti kvartað til Samgöngustofu. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×