Viðskipti innlent

Frávísunarkröfu Silicor Materials hafnað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sýnir fyrirhugaða staðsetningu verksmiðjunnar.
Myndin sýnir fyrirhugaða staðsetningu verksmiðjunnar.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag frávísunarkröfu Silicor Materials, Skipulagsstofnunar og íslenska ríkisins í máli sem landeigenda í Hvalfirði gegn aðilunum. Deila aðila snýst um það hvort fyrirhuguð framkvæmd fyrirtækisins við Grundartanga þurfi að fara í umhverfismat.

Sjá einnig:Stefna ríkinu og Silicor Materials: Vilja sólarkísilverksmiðjuna í umhverfismat

Silicor Materials stefnir að því að reisa um 100.000 fermetra verksmiðju á Grundartanga sem áætlað er að geti framleitt um 16.000 tonn af sólarkísil á ári hverju. Sólarkísilinn yrði síðar notaður til að smíða sólarrafhlöður.

„Það er algerlega kolefnishlutlaust, þessu verkefni fylgir enginn úrgangur. Þetta er gott verkefni,“ sagði Terry Jester, forstjóri Silicor Materials, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í mars á þessu ári. Það hefur verið mat fyrirtækisins og Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að skaða sitt nánasta umhverfi en landeigendur í kring hafa ekki fallist á það.

Sjá einnig:Vilja hefja framkvæmdir á Grundartanga í haust

„Krafan um frávísun í þessu máli var tilraun þessa fyrirtækis til að forðast það að svara fyrir þessa framkvæmd fyrir dómi. Sú tilraun mistókst. Hér er verið að byggja stærstu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum sem mun framleiða áður óþekkt magn af hrámálm með byltingarkenndum nýjum aðferðum. Hér eru einstaklingar, bændur, og ferðaþjónustuaðilar, venjulegt fólk og fjölskyldur að leita réttar síns gagnvart tilrauna stóriðju í bakgarði sínum,“ segir Sigríður Dís Guðjónsdóttir héraðsdómslögmaður við Vísi. Hún flutti málið fyrir hönd landeigenda.

Héraðsdómur féllst á frávísunarkröfu í tveimur tilfellum. Annars vegar í tilfelli Kjósarhrepps þar sem ekki lágu fyrir gögn sem sýndu fram á eignarhald hreppsins á fasteignum sem gætu orðið fyrir áhrifum vegna verksmiðjunnar. Hitt tilvikið varðaði náttúruverndarfélagið Umhverfisvaktina við Hvalfjörð sem ekki var talið eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Að auki kom félagið ekki að málinu við ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Fyrirhugað var að framkvæmdir við verksmiðjuna myndu hefjast á þessu ári og að hún yrði tilbúin árið 2018. Ljóst er að það mun dragast á langinn á meðan endanleg niðurstaða fæst um hvort nauðsynlegt sé að umhverfismat fari fram.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×