Innlent

Fjögur hvalaskoðunarfyrirtæki fá alþjóðlega umhverfisvottun

Svavar Hávarðsson skrifar
Fleiri ferðamenn fara í hvalaskoðunarferðir í ár en byggja þetta land, segja spár.
Fleiri ferðamenn fara í hvalaskoðunarferðir í ár en byggja þetta land, segja spár. Fréttablaðið/Stefán
Landvernd hefur veitt fjórum hvalaskoðunarfyrirtækjum bláfánavottun fyrir sjálfbæra sjávarferðamennsku. Þetta er í fyrsta skipti sem Bláfáninn er veittur hvalaskoðunarfyrirtækjum í heiminum. Viðurkenninguna hlutu Ambassador á Akureyri og Elding, Special Tours og Whale Safari í Reykjavík.

Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er fyrirtækjum og sveitarfélögum fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum, og frá árinu 2016 einnig fyrirtækjum í sjávartengdri ferðaþjónustu, segir í tilkynningu Landverndar.

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda haf- og strandsvæði, draga úr umhverfisáhrifum með kerfisbundnum hætti, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Þessu er náð með bættri umhverfisstjórnun, góðum slysavörnum, eftirliti með vatnsgæðum og öflugri fræðslu og upplýsingagjöf.

Landvernd innleiddi Bláfánann hér á landi árið 2002 en verkefnið hefur verið rekið á alþjóðavísu frá árinu 1985 af alþjóðlegu umhverfismenntasamtökunum Foundation for Environmental Education (FEE), sem Landvernd er aðili að. Landvernd kom af stað þróun bláfánaviðurkenningarinnar fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki á vegum FEE.

Á Íslandi flagga því viðurkenningunni fjögur hvalaskoðunarfyrirtæki með alls 16 báta, sex smábátahafnir og þrjár baðstrendur. Hvalaskoðunarfyrirtækjunum var afhentur Bláfáninn við veglega athöfn sem fór fram í kjölfar viðburðar á vegum Whales and Dolphin Conservation í Hvalasýningarsafninu á Granda í tilefni af 25 ára afmæli hvalaskoðunar á Íslandi. 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. júní 2016 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×