Skoðun

Atvinnufrelsi ökuleiðsögumanna er skert

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
Regluverk um fólksflutninga á landi skerða atvinnufrelsi ökuleiðsögumanna. Í starfi sínu þurfa leiðsögumenn að fara með ferðamenn um hina ýmsu staði til að geta sinnt starfi sínu með eðlilegum hætti. Ökuleiðsögumönnum er hins vegar óheimilt að leiðsegja akandi í farartækjum fyrir færri en átta farþega nema í rútum, breyttum jeppum eða eðalvögnum. Í því felst vandinn.

Mjög óhagkvæmt er að leiðsegja litlum hópum í stórum rútum. Í tólf til átján farþega rútu tapast nándin sem ferðamenn sækjast eftir þegar þeir ráða akandi einkaleiðsögumann. Breyttir jeppar eru óþarfir á helstu vegum landsins. Mörgum ferðamönnum þykir auk þess erfitt og hvimleitt að þurfa að klifra upp í breytta jeppa. Almennt séð er engin ástæða til að keyra með ferðamenn á fjallatrukkum og jöklajeppum nema farið sé um fjallvegi, yfir ár eða jökla. Eðalvagnar eru lúxusbílar, væntanlega limósínur og svipuð farartæki. Þessi ökutæki henta ekki í ferðir út fyrir Reykjavík. Engin ástæða er heldur til að notast við eðalvagna þegar ferðamennirnir óska sjálfir eftir sparneytnum fólksbílum.

Stofnkostnaðurinn við eðalvagn er óþarflega dýr og getur reynst of stór biti. Þá vilja alls ekki allir ferðamenn ferðast í limósínum. Ferðamennirnir eru ekkert endilega að sækjast eftir lúxus, eðalvagnar höfða ekkert sérstaklega til þeirra. Þeir vilja bara fá að kynnast landi og þjóð í gegnum góðan leiðsögumann sem hjálpar þeim að heimsækja landið og leiðbeinir þeim um landslag, náttúru og sögu sem og þau mörk sem heimamenn hafa.

Loftslagsmálin hafa verið mikið til umræðu síðustu mánuði. Það er í takt við þróunina að nota sparneytna bíla. Venjulegir bílar, ekki síst rafmagnsbílar, hljóta að koma sterkar inn í ferðaþjónustuna. Ökuleiðsögumenn eiga að geta nýtt sér þessa bíla.

Fagmenntuðum mismunað

Leigubílastöðvar auglýsa leiðsögn á leigubílum um náttúruperlur landsins. Búast má við að einhverjir, kannski margir, leigubílstjórar sinni þessari leiðsögn án þess að hafa til þess fagmenntun. Ósanngjarnt er að fagmenntaðir leiðsögumenn sem hafa bæði leigubílapróf og rútupróf megi ekki leiðsegja á allt að átta farþega bílum meðan ófagmenntaðir leigubílstjórar geta gert það í skjóli laga og reglna. Hvaða réttlæti er í því?

Fagmenntaðir ökuleiðsögumenn hafa menntun til þess að sinna leiðsögn, þeir eru líka með meirapróf og hafa menntun til að sinna akstri um leið, bæði svokallað leigubílapróf (án þess að það eitt sér nýtist þeim á nokkurn hátt faglega eða starfslega). Einnig eru þeir með próf á litlar og jafnvel stórar rútur. Þessi próf nýtast ekki vegna skerðandi ákvæða í lögum og reglugerðum. Fagmenntuðum ökuleiðsögumönnum er mismunað. Þeir búa ekki við sama atvinnufrelsi og aðrar stéttir. Þeir hafa ekki frelsi til að velja sér þau ökutæki sem þeim þykir best henta í sínu starfi eða rekstri. Þessu þarf að breyta.

Engin ástæða er til að skerða atvinnufrelsi ökuleiðsögumanna með þessum hætti. Engin ástæða er til að taka þá út úr og hefta frelsi þeirra umfram aðrar stéttir til að velja sér það atvinnutæki sem þeim þykir best henta til að geta stundað vinnu sína með eðlilegum hætti. Reglugerðarákvæðum þarf því að breyta strax og opna fyrir starfsfrelsi og starfsmöguleika ökuleiðsögumanna að fullu þannig að þeir geti valið það ökutæki sem þeim þykir henta. Þeir þurfa að geta leiðsagt litlum hópum í farartækjum fyrir átta farþega eða færri.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×