Lífið

Þingkona selur af sér spjarirnar á Facebook

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hanna María Sigmundsdóttir, yngsta þingkonan og meðlimur Framsóknarflokksins, selur fötin sín á Facebook.
Hanna María Sigmundsdóttir, yngsta þingkonan og meðlimur Framsóknarflokksins, selur fötin sín á Facebook. Vísir/GVA
Ég tók eftir því að ég átti flíkur sem ég var ekki búin að nota lengi og var ekkert að fara að nota. Sumt var ég búin að nota oft og komin með leiða á en annað hafði ég ekki snert eftir að ég keypti það. Fannst það bara óþarfi að hafa föt inni í skáp sem aðrir gætu notað,“ segir Hanna María Sigmundsdóttir, sjöundi þingmaður Norðvesturkjördæmis, en sem stendur selur hún af sér spjarirnar á Face­book-síðu sinni þar sem hún hefur staðið í alls­herj­ar­til­tekt í fataskápnum sínum.

Á Facebook-síðu Hönnu er að finna fjölbreytt úrval af fötum og meðal annars er að finna brjóstahaldara sem þingmaðurinn telur geta komið að betri notum annars staðar.

„Brjóstahaldararnir hafa aldrei verið notaðir, þeir voru keyptir of litlir og hafa legið lengi ofan í skúffu,“ segir hún en en meginástæða fyrir fatasölunni segir Hanna að sé til að koma fötunum í hendur þeirra sem geta notað þau.

Það er óhætt að segja að salan á Facebook-síðu Hönnu gangi vel en nú þegar hefur hún selt talsvert af fötunum sínum og fengið góð viðbrögð við sölunni.

„Viðbrögðin sem ég hef fengið eru mjög góð, ég er búin að selja slatta af fötum. Eins og ég segi er tilgangurinn með sölunni að koma fötunum í hendur þeirra sem geta notað þau frekar en að „græða“, svo ég er ekki að setja hátt verð á hverja flík,“ segir Hanna

Margir eiga það til að kaupa sér of mikið af ákveðnum flíkum en ætli Hanna eigi við það vandamál að stríða?

„Ég kaupi mér allt of mikið af skóm. Þeir sem þekkja mig vita líka að nýir skór gleðja mig mikið og ég er sjaldan í sömu skónum tvo daga í röð. Ég er farin að kaupa meira af íslenskri hönnun, bæði í fötum og skarti. Hef verið að selja eina og eina flík en núna ákvað ég að taka ærlega til í skápunum fyrir sumarið. Það er alveg slatti eftir sem ég á eftir að bæta við í tiltektarbunkann,“ segir hún og bætir við að hún versli í öllum mögulegum búðum og sé dugleg við að nýta sér „outlet“ og sölusíður á Facebook.

„Ætli sú búð sem ég heimsæki mest sé ekki Kjólar og konfekt,“ segir Hanna að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×