Sport

Jökullinn logar kom gestum í EM-skapið: „Hollt fyrir okkur strákana að fá smá búst“

Bjarki Ármannsson skrifar
Jökullinn logar, heimildarmynd um leið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á sitt fyrsta stórmót, var frumsýnd í Háskólabíói í kvöld. Í myndinni er landsliðinu fylgt eftir í gegnum undankeppnina að Evrópumeistaramótinu í sumar, þar sem fræknir sigrar unnust meðal annars á Hollandi og Tékklandi.

Margmenni var á frumsýningunni og ásamt mörgum af helstu stjörnum landsliðsins, mátti þar greina gesti á borð við Björgólf Thor Björgólfsson athafnamann og eiginkonu hans, Kristínu Ólafsdóttur, sem er meðal framleiðenda myndarinnar. Fjölmiðlamennirnir Sölvi Tryggvason, sem einnig er meðal framleiðenda og skrifaði sömuleiðis handritið að myndinni, og Björn Ingi Hrafnsson létu einnig sjá sig.

Blaðamaður Vísis á staðnum náði tali af Hannesi Þór Halldórssyni landsliðsmarkmanni eftir frumsýninguna og spurði hann álits, en Hannes hefur sem kunnugt er sjálfur getið sér gott orð sem leikstjóri.

„Mér fannst þetta bara stórskemmtilegt,“segir Hannes. „Ég er kannski extra hrifnæmur fyrir þessu efni og ekki alveg hlutlaus en það var bara hrikalega gaman að endurupplifa þetta. Ótrúlega vel að verki staðið hjá þessum góðum kvikmyndagerðamönnum.“

Jökullinn logar from Purkur on Vimeo.

Íslendingar bera margir sterkar tilfinningar til landsliðsins og gengu margir út í greinilegu „EM-skapi“. Hannes hafði áður séð stóran hluta myndarinnar og segist þá nokkrum sinnum hafa þurft að kyngja kekknum í hálsinum.

„Mér fannst þeir ná að fanga stemninguna vel og setja þetta í skemmtilegan búning,“segir hann. „Ég held að það hafi líka verið hollt fyrir okkur strákana að sitja hérna og fá smá búst og rifja upp hversu gaman þetta var. Þetta er fínasta hvatning fyrir það sem koma skal.“

Hér að neðan má sjá myndasyrpu sem Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, náði á frumsýningunni.

Landsliðsmennirnir Birkir Bjarnason og Hannes Þór Halldórsson.Vísir/Eyþór

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×