Enski boltinn

Ætluðu að æfa sig á móti Cristiano Ronaldo en fá ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Gareth Bale.
Cristiano Ronaldo og Gareth Bale. Vísir/Getty
Englendingar mæta Portúgal í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum í kvöld en þetta er síðasti leikur enska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Frakklandi sem hefst í næstu viku.

Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, talaði um það á blaðamannafundi fyrir leikinn að ætlunin hafi verið að nota þennan leik við Portúgal sem æfingu til að glíma við Gareth Bale, leikmann Wales.

Englendingar eru í riðli með Wales á Evrópumótinu í Frakklandi en fyrsti leikur enska liðsins á EM er þó á móti Rússlandi eftir níu daga.

Enska þjálfarateymið bjóst við því að Cristiano Ronaldo yrði með Portúgölum í leiknum en hann fékk leyfi frá portúgalska sambandinu á meðan hann væri að jafna sig eftir tímabilið.

Cristiano Ronaldo vann Meistaradeildina með Real Madrid á laugardaginn var en hann hefur verið að glíma við meiðsli og var ólíkur sjálfum sér í úrslitaleiknum þó að hann hafi á endanum tryggt Real titilinn með því að skora úr síðustu spyrnunni í vítaspyrnukeppninni.

„Við vorum að hugsa um Gareth Bale," sagði Roy Hodgson þegar hann var spurður um ástæður þess að Englendingar völdu Portúgal sem lokamótherja sinn fyrir Evrópumótið.

Portúgalska landsliðið spilar sinn fyrsta leik á Evrópumótinu á móti Íslandi í Saint-Étienne 14. júní næstkomandi en leikurinn á móti Englandi verður þó ekki generalprufan fyrir mótið.

Portúgal spilar lokaundirbúningsleik sinn á móti Eistlandi á miðvikudaginn kemur en tveimur dögum eftir að íslenska landsliðið spilar sinn síðasta undirbúningsleik á móti Liechtenstein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×