Innlent

Metfjöldi umsókna um hæli hér á landi

Sveinn Arnarsson skrifar
Málafjöldi á borði Útlendingastofnunar slær öll fyrri met.
Málafjöldi á borði Útlendingastofnunar slær öll fyrri met.
Alls hafa 235 umsóknir borist Útlendingastofnun á þessu ári um vernd hér á landi. Á sama tímabili í fyrra sóttu aðeins 64 einstaklingar um vernd hér á landi og er því um mikla fjölgun að ræða. Maímánuður í ár er einnig stærsti mánuður ársins en 56 umsóknir bárust í þeim mánuði einum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Útlendingastofnunar sem birtist á heimasíðu þeirra. Flestar umsóknir í maímánuði komu frá Albaníu, eða 24 talsins. Níu að auki komu frá Makedóníu.

Sex af hverjum tíu umsækjendum um vernd á Íslandi koma frá Balkanskaga en einstaklingar frá þeim löndum fá sjaldan umsókn um vernd samþykkta hér á landi.

Niðurstaða fékkst í 75 mál í maímánuði. Níu einstaklingar fengu vernd hér á landi en hinum var hafnað eða umsóknir þeirra ekki teknar til efnislegrar meðferðar af Útlendingastofnun af ýmsum ástæðum. Þegar maí var liðinn voru enn 153 mál til meðferðar hjá stofnuninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×