Innlent

Bíllaus eyja í Skerjafirðinum og sundlaug í miðjum voginum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Óhætt er að segja að vinningstillagan um skipulag á Kársnesinu í Kópavogi sé djörf en skemmtileg.

Megináskorun hugmyndakeppninnar var að finna leiðir til þess að bæta tengingar við Kársnesið og höfuðborgarsvæðið þannig að Kársnesið verði dýnamískt og sjálfbært borgarsvæði fyrir fólk, fyrirtæki og umhverfið.

Dæmi um það hvernig tillagan mætir þeirri áskorun er með tillögum um að brúa bæði Fossvoginn og yfir á Bessastaðanes fyrir hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur.

Spot on Kársnes er yfirskrift tillögunnar sem bar sigur úr bítum í keppninni. Dagný Bjarnadóttir, Anders Egebjerg Terp, og Gunnlaugur Johnson arkitektar stóðu að tillögunni en alls bárust 19 hugmyndir í keppnina um Kársnesið en þess ber að geta að um hugmynd er að ræða en ekki endanlegt skipulag.

Þá er þar meðal annars gert ráð fyrir eyju undir Náttúruvísindasetur, Bíllausri eyju, þangrækt og sundlaug í miðjum Fossvoginum.

Birgir H. Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar segir það hafa verið mikla áskorun fyrir Kópavog að taka þátt í samkeppni af þessari stærðargráðu. Vinningstillagan gefur von um nýja framtíðarsýn fyrir svæðið.

Sjá má innslag um Spot on Kársnes í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×