Innlent

Faldi sig fyrir lögreglumönnum í rjóðri eftir að hafa tekið u-beygju á Lækjargötu

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn festi bílinn í brekkunni við Veðurstofu Íslands.
Maðurinn festi bílinn í brekkunni við Veðurstofu Íslands. Vísir/Hanna
U-beygja á Lækjartorgi varð valdurinn að leitaraðgerðum lögreglumanna í nágrenni Veðurstofu Íslands í gærkvöldi. Leitin skilaði árangri en þar hafði maðurinn falið sig í rjóðri í þeirri von um að sleppa undan lögreglumönnum sem höfðu veitt honum eftirför úr miðborg Reykjavíkur. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sáu lögreglumenn við hefðbundið umferðareftirlit ökumann taka u-beygju á Lækjartorgi þar sem það er bannað. Maðurinn varð ekki við skipun lögreglumanna um að stöðva bifreiðina og ók hann fremur glannalega eftir Lækjargötu, þaðan á Hringbraut áður en leið hans lá upp á Bústaðaveg.

Þar ók hann yfir umferðareyju og síðan yfir á öfugan vegarhelming. Þegar þar var komið virtist maðurinn sjá engan annan kost í stöðunni en að aka upp grasbrekku norðan Bústaðavegar í grennd við Veðurstofu Íslands en þar komst hann ekki lengra eftir að hafa fest bílinn. 

Hann yfirgaf bílinn og hélt flótta sínum áfram á tveimur jafnfljótum. Lögreglumenn hófu þá leit að honum en hann er sagður hafa fundist eftir skamma leit í rjóðri skammt frá þeim stað sem hann yfirgaf bílinn.

Maðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu en er nú laus úr haldi. Lögreglan vildi ekki gefa upp hvers vegna hann lagði á flótta en hann á von á ákæru og að missa ökuréttindin. 

Maðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu en er nú laus úr haldi.Vísir/Hanna

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×