Lífið

Samstarf fjölskyldunnar gengur vel

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hjónin Helga Rós og Ragnar Bragason ásamt drengjunum sínum Alvin Huga og Bjarti Elí.
Hjónin Helga Rós og Ragnar Bragason ásamt drengjunum sínum Alvin Huga og Bjarti Elí. Visir/Anton
Tökur hafa gengið vel í gamla kvennafangelsinu í Kópavogi. Vísir/Anton
Hér hefur allt gengið að óskum og áfallalaust fyrir sig. Við erum að verða hálfnuð með tökurnar og erum staðsett sem stendur í gamla kvennafangelsinu í Kópavogi. Seinni hluti tökuplansins fer svo fram víðs vegar um Reykjavíkursvæðið,“ svarar Ragn­ar Braga­son leikstjóri spurður út í tökur á þáttaröðinni Fangar. Upp­haf þess­ar­ar þátt­araðar má rekja til rann­sókn­ar­vinnu þeirra Nínu Dagg­ar Fil­ipp­us­dótt­ur og Unn­ar Asp­ar Stef­áns­dótt­ur sem heim­sóttu fanga og fanga­verði í kvennafang­elsið í Kópa­vogi í heil sjö ár, en þær fara báðar með hlutverk í þáttunum.

Mar­grét Örn­ólfs­dótt­ir og Ragn­ar Braga­son skrifuðu handritið sem fjallar um Lindu, unga konu frá Reykjavík sem færð er í kvennafangelsið eftir alvarlega líkamsárás á föður sinn.

„Þetta er mikið fjölskyldudrama, við kynnumst fjölskyldu sem dílar við mikinn harmleik. Í sög­unni kynn­ist við Lindu, einni af tveimur dætrum þekkt­s manns úr viðskipta­líf­inu. Líf henn­ar hryn­ur þegar hún er færð í kvennafang­elsið í Kópa­vogi eft­ir að hafa ráðist á föður sinn og veitt hon­um lífs­hættu­lega áverka. Við erum í rauninni að fylgja konunum í þessari fjölskyldu eftir og sjá hvernig þær díla við þessar aðstæður,“ segir Ragnar og bætir við að í fang­els­inu kynnist Linda konum af öðru sauðahúsi, sem all­ar hafa sögu að segja.

Margir spyrja sig eflaust hvort þáttaröðin sé í líkingu við fangaþáttinn vinsæla „Orange Is the New Black“ en svo segir Ragnar alls ekki vera.

„Nei alls ekki. Fangar er miklu meiri dramaþáttur, þar sem kynbundið ofbeldi, þöggun og þyngri hlutir koma fyrir,“ segir hann.

Leikhópurinn spannar hátt í hundrað manns þar sem uppistaðan eru konur á öllum aldri og er því óhætt að segja hópurinn sé afar fjölbreyttur

„Þetta er dásamleg blanda. Uppistaðan er konur á öllum aldri, í hópnum eru þrjár ungar leikkonur sem eru nýútskrifaðar úr Listaháskólanum og koma þarna inn með látum. Það er góður samhljómur í hópnum og gaman að sjá eldri og reyndari leikara í bland við yngri leikara, og stemmingin hefur orðið náin og falleg,“ segir Ragnar.

Það vill svo skemmtilega til að öll fjölskylda Ragnars vinnur á tökustað, en hvernig ætli það hafi komið til?

„Helga Rós, konan mín, er búningahönnuður og hefur unnið við megnið af því sem ég hef gert á mínum ferli, svo við erum alls ekki að vinna saman í fyrsta skipti. Strákarnir mínir tveir, Alvin Hugi og Bjartur Elí, vinna sem aðstoðarmenn við framleiðslu. Þetta er byrjandastaða í bransanum, þar sem þú ert í nánast öllu sem til fellur,“ segir Ragnar og segir samstarf fjölskyldunnar ganga frábærlega vel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×