Fótbolti

Fyrsta markalausa jafnteflið á EM í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil í baráttunni við Grzegorz Krychowiak og Krzysztof Maczynski.
Mesut Özil í baráttunni við Grzegorz Krychowiak og Krzysztof Maczynski. vísir/epa
Þýskaland og Pólland gerðu markalaust jafntefli í lokaleik dagsins á Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi. Þetta er fyrsti leikur Evrópumótsins í ár þar sem hvorugt liðið nær að skora mark.

Pólverjar voru örugglega ánægðari með úrslitin en Þjóðverjar enda þýska liðið mun meira með boltann í leiknum auk þess að Þjóðverjarnir sköpuðu sér fleiri færi.

Þessi úrslit voru samt verst fyrir Úkraínumenn enda þýða þau að Úkraína er fyrsta liðið á EM sem á ekki lengur möguleika á því að komast í sextán liða úrslitin.

Bæði lið Þýskaland og Póllanda eru með fjögur stig og í ágætri stöðu í tveimur efstu sætum C-riðilsins. Norður Írar eru í 3. sætinu með 3 stig en eftir þessi úrslit er ljóst að Úkraínumenn eru úr leik enda enn án stiga.

Þjóðverjar voru mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum og áttu einnig fleiri skot en annars var lítið um góð færi í hálfleiknum. Pólverjar fóru varlega og tóku litla áhættu.

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir góðum færum í seinni hálfleik því bæði lið voru búin að fá færi áður en tvær mínútur voru liðnar.

Fyrst skallaði Arek Milik rétt framhjá og svo varði Lukasz Fabianski vel frá Mario Götze.

Pólverjar reyndu meira í seinni hálfleiknum en eftir viðburðaríka byrjun á seinni hálfleiknum hægðist aftur á leiknum.

Þjóðverjar mæta Norður-Írum í lokaumferðinni en Pólverjar spila þá við Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×