Þetta er fyrsti sigur Norður-Íra í lokakeppni EM frá upphafi en keppnin í Frakklandi er þeirra fyrsta í sögunni.
Gareth McAuley kom N-Írlandi í 1-0 á 49. mínútu. Miðvörðurinn sterki stangaði þá aukaspyrnu Olivers Norwood í netið. Þetta var þriðja mark McAuleys í síðustu sex keppnisleikjum fyrir N-Írland.
Úkraínumenn voru miklu meira með boltann en fundu engar leiðir í gegnum norður-írsku vörnina sem stóð sig vel í dag. Þá var Michael McGovern öruggur á milli stanganna.
Þrátt fyrir að vera mun minna með boltann voru Norður-Írar hættulegri aðilinn í leiknum og þá sérstaklega í föstum leikatriðum.
Það rigndi mikið í Lyon á meðan á leiknum stóð og eftir tæpan klukkutíma kom haglél, svo mikið að tékkneski dómarinn Pavel Královec þurfti að gera nokkurra mínútna hlé á leiknum.
Úkraína sótti og sótti en skapaði sér ekki nógu góð færi til að skora. Það var svo varamaðurinn Niall McGinn sem gulltryggði sigur Norður-Íra þegar hann skoraði annað mark þeirra þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. McGinn fylgdi þá eftir skoti Stuart Dallas sem Andriy Pyatov varði. Lokatölur 2-0, N-Írlandi í vil.
Norður-Írar eru nú komnir með þrjú stig í C-riðli en Úkraínumenn eru enn án stiga.
Úkraína 0-2 N-ÍrlandEnn 1-0 fyrir Norður-Írlandi gegn Úkraínu. Hér er markið sem kom á 49. mínútu. #EMÍsland https://t.co/hy9DZPE3EI
— Síminn (@siminn) June 16, 2016
Mark á 6. mínútu uppbótartíma! 2-0 fyrir Norður-Írlandi gegn Úkraínu. #EMÍsland https://t.co/2qN3s6MfBp
— Síminn (@siminn) June 16, 2016