Erlent

Mögulega réttað yfir eiginkonu Mateens

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Víða hefur fórnarlamba árásarinnar verið minnst.
Víða hefur fórnarlamba árásarinnar verið minnst. Nordicphotos/AFP
Saksóknarar í Flórída hafa nú hafið rannsókn á hendur Noor Salman, eiginkonu Omars Mateen, fyrir þátt hennar í árás Mateen á hinsegin skemmtistaðinn Pulse í Orlando. 49 féllu í árásinni og 53 særðust, þar af eru sex enn í lífshættu. Frá þessu greinir Reuters.

Samkvæmt heimildum Reuters og Fox News hyggjast saksóknararnir ákæra Salman fyrir að vera vitorðsmaður að 49 morðum og 53 morðtilraunum. Salman hefur verið yfirheyrð en ekki handtekin.

Angus King, meðlimur öryggisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, sagði í viðtali á CNN að það liti út fyrir að Salman hafi vitað af áformum Mateen. „Hún gegnir mikilvægu hlutverki í rannsókninni og virðist ætla að vera samvinnuþýð. Hún gæti gefið okkur verðmætar upplýsingar,“ sagði King.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því á þriðjudag að Salman hafði farið með Mateen að kaupa skotfæri sem og á skemmtistaðinn Pulse þegar hann vildi rannsaka staðinn. Sama dag sagði hún í viðtali við NBC að hún hefði reynt að tala Mateen til og fá hann til að hætta við.

Heimildarmenn CNN innan rannsóknarlögreglunnar í Orlando segja Mateen hafa notað spjallborð á netinu fyrir samkynhneigða, en flest fórnarlamba hans voru samkynhneigð. Þó segjast þeir ekki vissir hvort það hafi verið vegna þess að hann hafi sjálfur verið samkynhneigður eða til þess að rannsaka möguleg fórnarlömb. Nokkrir fastagesta Pulse hafa einnig komið fram og sagst hafa séð Mateen margsinnis inni á staðnum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×