Lífið

Viðskiptavinir störðu á auða veggina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þar sem áður héngu landsliðstreyjur er nú eitt Ginnungagap. Umrædd markmannstreyja húkir niðri í hægra horninu.
Þar sem áður héngu landsliðstreyjur er nú eitt Ginnungagap. Umrædd markmannstreyja húkir niðri í hægra horninu. Vísir/eyþór
Græn síðerma markmannspeysa í medium. Það er eina landsliðstreyjan sem eftir var hjá Jóa útherja þegar blaðamaður Vísis heyrði hljóðið í starfsmanni verslunarinnar fyrr í dag. Mikil ásókn hefur verið í allan varning tengdan íslenska landsliðinu eftir að það tryggði sæti sitt á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Verslanir hafa ekki farið varhluta af því og segir starfsmaður Jóa útherja, sem er sérhæfð knattspyrnuverslun, í samtali við Vísi að til marks um það má nefna að allir treflar sem búið er að klína íslenska fánanum á eru löngu uppseldir.

Vísir hefur áður greint frá landsliðstreyjuæðinu sem gripið hefur landann. Erfitt er að meta það á þessu stigi hversu margar treyjur hafa selst að undanförnu en menn slá á að það séu um 15 þúsund treyjur. Treyjurnar kosta 12 þúsund krónur þannig að um verulega veltu er að ræða.

Sjá einnig: Slegist um landsliðstreyjurnar

Það var því heldur tómlegt um að litast þegar ljósmyndari Vísis leit við í versluninni í dag. Ráðvilltir viðskiptavinir störðu á auða veggina og spurðust fyrir um væntanlegar sendingar.

Fánar og húfur virðast þó ekki vera jafn vinsælt góss því það liggur þar enn í bunkum. „Það virðist enginn ganga um með húfur þarna í Frakklandi,“ sagði starfsmaðurinn í samtali við Vísi sem býst þó við að mesti kúfurinn sé nú að baki.

 


Tengdar fréttir

Slegist um landsliðstreyjurnar

Sannkallað treyjuæði ríkir á Íslandi. Gróft metið má ætla að um 30 þúsund manns ætli sér að klæðast íslenska landsliðsbúningnum næstu daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×