Innlent

Brotist inn í bíla íslenskra stuðningsmanna á meðan strákarnir léku gegn Portúgal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhann Óli var svo hátt uppi eftir jafnteflið í gær að hann var hinn hressasti þrátt fyrir innbrotið í nótt.
Jóhann Óli var svo hátt uppi eftir jafnteflið í gær að hann var hinn hressasti þrátt fyrir innbrotið í nótt. Vísir/Tómas Þór
Um átta þúsund íslenskir stuðningsmenn létu vel í sér heyra og gott betur á Stade Geofrroy-Guichard í gærkvöldi þar sem frækið og sögulegt jafntefli náðist gegn Portúgal á Evrópumótinu í Frakklandi. Á meðan þeir fögnuðu nýttu hins vegar bíræfnir þjófar tækifærið og brutust inn í bíla í nágrenni leikvangsins.

Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður Vísis sem er á ferðalagi í Frakklandi í tilefni EM, var einn þeirra sem kom að brotinni rúðu í bílaleigubíl sínum á tólfta tímanum í nótt að staðartíma eftir að leik lauk. Farið hafði verið inn í bílinn og meðal þess sem var tekið var fatnaður og miðinn á næsta leik Íslands í keppninni, gegn Ungverjum í Marseille á laugardaginn.

Ferðafélagar Jóhanns Óla höfðu sem betur fer tekið vegabréf sín úr bílnum til vonar og vara og er hópurinn því enn með þau.

Hópurinn fór á lögreglustöð í Saint-Étienne í nótt og tilkynnti þjófnaðinn. Í ljós kom að brotist hafði verið inn í um fjörutíu bíla sem áttu það allir sameiginlegt að vera ekki á kunnuglegum númeraplötum, plötum frá svæðinu. Meðal þeirra sem lentu í því að brotist var inn í bíl þeirra var íslensk fjölskylda þar sem þjófarnir létu greipar sópa.

 


Tengdar fréttir

Sagan skrifuð í Saint-Étienne

Íslenska karlalandsliðið spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti í gær gegn Portúgal. Í fyrsta leiknum skoraði liðið fyrsta markið og náði í fyrsta stigið. Strákarnir okkar eru komnir aftur eftir hálfs árs runu af slæmum úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×