Erlent

Þjálfaðar rússneskar boltabullur stóðu fyrir óeirðum í Marseille

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Englendingur með höfuðáverka í haldi lögreglu.
Englendingur með höfuðáverka í haldi lögreglu. Nordicphotos/AFP
Hundrað og fimmtíu manna hópur vel þjálfaðra rússneskra fótboltabulla stóð fyrir óeirðunum í Marseille á sunnudaginn í kjölfar leiks Englands og Rússlands á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Alls slösuðust 35 manns í óeirðunum, þar af fjórir alvarlega. Um tuttugu voru handteknir en réttað verður yfir tíu þeirra á næstu dögum.

Frá þessu greinir Brice Robin, saksóknari í borginni. „Þeir voru vel þjálfaðir til að beita ofsafengnu ofbeldi á miklum hraða,“ segir Robin.

Á blaðamannafundi í gær sagði Robin hafa verið sérstaklega erfitt að handtaka rússnesku bullurnar þar sem þær væru vanar að komast hjá handtöku. Hann sagði bullurnar ekki fagmenn en einkar öfgafullar.

Igor Lebedev, þingmaður
Lögregluyfirvöld í Frakklandi greina nú myndir úr öryggismyndavélum til að bera kennsl á sem flesta sem áttu þátt í ofbeldinu. Gera þeir það í samstarfi við rússnesk og ensk lögregluyfirvöld.

Tveir Englendingar voru í gær dregnir fyrir dómstóla fyrir sinn þátt í óeirðunum. Hinn tvítugi Alexander Booth var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að kasta flösku í lögreglumann og hinn 41 árs Ian Hepworth var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir sama athæfi. Báðum var þeim bannað að koma til Frakklands næstu tvö árin. Tveimur Rússum hefur einnig verið vísað úr landi.

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hótaði Englendingum og Rússum brottrekstri úr mótinu ef athæfið endurtæki sig. Einnig hefur sambandið ákært rússneska knattspyrnusambandið og verður refsingin ákveðin í dag.

Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússa, telur UEFA hafa gert rétt. Frá því sagði hann í viðtali við rússneska miðilinn R-Sport í gær.

Igor Lebedev, þingmaður minnihlutaflokksins LDPR, er hins vegar ósammála Mutko.

„Ég skil ekki hvað er að því að fótboltaaðdáendur sláist. Þvert á móti. Vel gert strákar! Haldið þessu áfram,“ sagði hann á Twitter-síðu sinni í gær. Þá sagði hann óeirðirnar alfarið á ábyrgð lögreglu.

Yfirvöld í Frakklandi hafa hvatt stjórnendur leikvanga sem keppt verður á á mótinu til þess að taka allt áfengi úr sölu á meðan á leik stendur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×