Erlent

Vilja fá Neymar fyrir rétt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Neymar á milli liðsfélaga sinna, Luis Suarez og Lionel Messi.
Neymar á milli liðsfélaga sinna, Luis Suarez og Lionel Messi. Nordicphotos/AFP
Ríkissaksóknaraembætti Spánar vill draga brasilísku fótboltastjörnuna Neymar fyrir rétt vegna meintra fjársvika. Embættið vill meina að Neymar og faðir hans hafi skotið undan fé sem fjárfestingarfélag á Brasilíu átti að fá við félagaskipti Neymars til Barcelona á Spáni. Félagið átti rétt á fjörutíu prósentum ágóðans af sölu leikmannsins. Neymar hefur áður neitað ásökununum.

Barcelona segist hafa greitt 57 milljónir evra, um átta milljarða króna, fyrir Neymar árið 2013. Þar af féllu fjörutíu milljónir í skaut foreldra Neymars og sautján fóru til fyrrverandi félags hans, Santos.

Fjárfestingafélagið, DIS, segist aðeins hafa fengið fjörutíu prósent af hlut Santos en ekkert af hlut Neymars.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×