Erlent

Enskir stuðningsmenn valda strax usla í Marseille

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Englands eru mættir til Marseille.
Stuðningsmenn Englands eru mættir til Marseille. Vísir/Getty
Tveir stuðningsmenn enska karlalandsliðsins í knattspyrnu voru handteknir eftir að lögregla þurfti að beita táragasi þegar upp úr sauð milli Englendinganna og heimamanna af yngri kynslóðinni. Lögregla segir annan þeirra sem var handtekinn hafa ráðist á barþjón en hinn hvatt til óeirða.

Fulltrúi bresku lögreglunnar á svæðinu, sem hefur yfirumsjón með öryggi ensku ferðalanganna, segir að stuðningsmönnunum hafi lent saman við unga heimamenn um miðnætti að staðartíma fyrir utan Queen Victoria krána við gömlu höfnina.

Fjórir franskir lögreglumenn slösuðust lítillega í stimpingum við ensku stuðningsmennina en mikil ölvun var á staðnum. Ástandið skánaði eftir að táragasinu var beitt. Breska lögreglan segir þann hluta ensku stuðningsmannanna sem tóku þátt í óeirðunum mikinn minnihluta. Langflestir hegði sér vel.

England mætir Rússlandi í fyrsta leik sínum á EM í Marseille á morgun.

Vandræðin í kringum ensku stuðningsmennina rifjar upp sárar minningar fyrir marga frá árinu 1998. Þá mætti England Túnis í leik á HM í Marseille og Englendingarnir lentu upp á kant við stuðningsmenn Túnis og heimamenn í Marseille. Þetta varð til þess að óeirðir stóðu yfir í borginni í þrjá daga.

Í myndbandinu hér fyrir neðan eru þeir atburðir rifjaðir upp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×