
Óttar segir erfitt að festa fingur á hvers vegna þessar breytingar hafi átt sér stað. „Skýringin er helst þessi mikla umræða og allar þessar upplýsingar, netið og þessi opnu samskipti þessara einstaklinga sem gera það að verkum að fólk uppgötvar miklu fyrr hvað það vill gera,“ segir hann.
Hópurinn virðist vera með minni menntun en aðrir og líklegri til að eiga við geðræn vandamál að stríða samkvæmt rannsókninni. Þá virðist atvinnuleysi hópsins einnig vera mun meira en annarra þjóðfélagshópa. 14,3 prósent transkarla og 44,9 prósent transkvenna voru á framfærslu ríkisins í ferlinu, það er að segja á atvinnuleysisbótum eða endurhæfingarlífeyri. „Þetta er félagslega jaðarsettur hópur og virðist eiga erfitt uppdráttar í samfélaginu. Það virðist vera að hann þurfi meiri stuðning,“ segir Steinunn. “
Byggt á sjúkraskýrslum

„Það voru margir sem áttu mjög erfitt uppdráttar og höfðu gengið í gegn um meðferð við geðrænum vanda, annaðhvort notað geðlyf eða farið í sálfræðimeðferð,“ segir Steinunn. 51 prósent transkarla og 46 prósent transkvenna höfðu gengið í gegn um meðferð við geðrænum vanda sem sé mun hærra hlutfall en hjá öðrum þjóðfélagshópum.
Þá hefur meðalaldur þeirra sem leita til transteymisins lækkað lítillega en hann var 23 ár hjá transkörlum og 31 ár hjá transkonum. Við þetta bætist hópur ungmenna sem leitað hafi á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna kynáttunarvanda og því megi búast við að aldur þeirra sem leiti til transteymisins lækki enn frekar á næstu árum að sögn Steinunnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júní 2016
