Erlent

Istanbúl: Lá særður í tuttugu sekúndur áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp

Atli Ísleifsson skrifar
Forsætisráðherra segir að árásarmennirnir hafi komið á flugvöllinn með leigubíl.
Forsætisráðherra segir að árásarmennirnir hafi komið á flugvöllinn með leigubíl. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir að hryðjuverkaárásin á Atatürk-flugvellinum í Istanbul í gærkvöldi eigi að marka þáttaskil í hinni alþjóðlegu baráttu gegn herskáum uppreisnarhópum.

„Sprengjurnar sem sprungu í Istanbul í dag gætu hafa sprungið á hvaða flugvelli sem er í hvaða borg í heiminum sem er,“ sagði forsetinn. BBC greinir frá.

Sjá einnig:Íslendingur á flugvellinum í Istanbúl: „Ríkir óvissuástand í flugvélinni“

Tyrknesk yfirvöld hafa staðfest að 36 manns hafi farist og rúmlega 140 manns særst í árásinni. Þrír menn hófu skothríð fyrir utan og inni í flugstöðinni í gærkvöldi og sprengdu svo sjálfa sig í loft upp eftir að lögregla hóf skothríð sína.

ISIS kann að bera ábyrgð á árásinni

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir fyrstu upplýsingar benda til þess að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS kunni að hafa staðið að baki árásinni.

ISIS og uppreisnarhópum Kúrda hefur verið kennt um sprengjuárásir í Tyrklandi síðustu mánuði.

Komu með leigubíl

Yildirim segir að árásarmennirnir hafi komið á flugvöllinn með leigubíl. Í öryggismyndavélum má sjá einn árásarmannanna hlaupandi um í brottfararsalnum þar sem aðrir hlaupa burt frá honum.

Hann er svo skotinn af lögreglu og liggur á gólfinu í um tuttugu sekúndur áður en hann sprengir sjálfan sig í loft upp. Allir þrír árásarmennirnir eru látnir.

Svívirðileg árás

Bandaríkjastjórn hefur lýst árásinni sem svívirðilegri og ítrekað að Bandaríkjamenn standi þétt við bakið á Tyrkjum.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, tekur í sama streng og segir Þjóðverja syrgja fórnarlömbin og að Þjóðverjar standi með Tyrkjum.

Flugum til og frá flugvellinum var aflýst í kjölfar árásarinnar, en vélar eru nú aftur byrjaðar að taka á loft og lenda.

Uppfært 10:20

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá tyrkneskum yfirvöldum fórst 41 maður í árásinni og 239 særðust. Áður hafði komið fram að þrettán hinna látnu séu erlendir ferðamenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×