Samkvæmt veðbönkum er Gareth Southgate líklegastur til að taka við enska landsliðinu af Roy Hodgson sem sagði af sér eftir tapið fyrir Íslandi í gær.
Southgate hefur þjálfað enska U-21 ára liðið frá 2013 en hann var áður knattspyrnustjóri Middlesbrough.
Sjá einnig: The Times gaf öllum leikmönnum Englands núll í einkunn
Næstur á blaði hjá veðbönkum er Glen Hoddle, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands. Hoddle, sem er 58 ára gamall, hefur ekki stýrt liði frá 2006 þegar hann hætti hjá Wolves.
Síðan þá hefur Hoddle rekið knattspyrnuakademíu á Spáni og starfað sem álitsgjafi í sjónvarpi.
Eddie Howe, knattspyrnustjóri Bournemouth, er þriðji líklegasti kosturinn í landsliðsþjálfarastarfið samkvæmt veðbönkum og Alan Shearer, sem hefur litla sem enga reynslu af þjálfun, sá fjórði.
Sjálfur vill Shearer sjá Southgate og Hoddle taka við enska landsliðinu.
„Hoddle er frábær þjálfari sem hefur enn margt að bjóða,“ sagði Shearer sem lék undir stjórn Hoddles í landsliðinu. Honum líst líka vel á Southgate.
„Þetta snýst um að hafa leiðtoga og Southgate er klárlega svoleiðis týpa, líkt og Hoddle sem var frábær fyrir England.“
Sjá einnig: Aumingja Roy Hodgson: Launahæsti þjálfarinn gagnrýndur og svo þetta vandræðalega myndband
Harry Redknapp, sem var sterklega orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna 2012, er ekki jafn spenntur fyrir Southgate.
„Af hverju ætti hann að vera ofar á lista en stjórar sem hafa sannað sig eins og Steve Bruce og Sam Allardyce?“ sagði Redknapp.
„Ég kann vel við Southgate, hann er frábær náungi, en hvað hefur hann afrekað?“ bætti Redknapp við en hann hefur ekki mikla trú á að enska knattspyrnusambandið finni rétta manninn í starf næsta landsliðsþjálfara. Hann stakk hins vegar upp á Tim Sherwood í starfið.
„Hann hefur ástríðu og áhuga. Hann er ungur, fullur af orku og þekkir leikinn,“ sagði Redknapp en Sherwood var rekinn frá Aston Villa í lok október 2015.
Fótbolti