Í téðri teikningu er Gummi Ben í aðalhlutverki. Hann hefur öðlast heimsfrægð fyrir framgöngu sína við míkrófóninn þá er hann hefur lýst leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, og nú bregður svo við að í meðförum skopmyndateiknara Morgunblaðsins er Gummi að lýsa niðurstöðum kosningaúrslita. Og það er enginn annar en ritstjóri Morgunblaðsins, forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson sem óvænt vinnur sigur með því að smyrja boltanum í samskeytin. Hinir forsetaframbjóðendur eru sem áhorfendur og er þar vísað til fraseringar Gumma Ben.
Gummi vildi sem minnst um málið segja í samtali við Vísi. „Ekkert. Núll.“ Þegar Gummi er spurður hvort hann styðji einhvern tiltekinn í forsetakjörinu segir hann það sitt að vita. Og Gummi afgreiddi spurninguna um það hvort honum þætti myndin fyndin fremur snaggaralega: „Ég er ekki búinn að sjá hana. Ég heyrði bara af þessu áðan.“
Og, svo mörg voru þau orð.
Ýmsir á Facebook birta þessa skopteikningu og furða sig á myndinni. Talað er um lágkúru og átakanlegan skort á fyndni -- það sé fátt eitt tvírætt við teikningar Helga. Þórður Snær Júlíusson, svo eitt dæmi sé nefnt, er einn fjölmargra sem furðar sig á myndinni: „Þetta er eiginlega fyndið, vegna þess hversu sorglegt þetta er.“ Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi leggur orð í belg og segir: „Hvílík firring. Verst er að þetta er ekki einu sinni í áttina að því að vera fyndið.“
Teikningar Helga hafa vakið talsverða hneykslan og hér má sjá þegar skopmyndateiknarinn útskýrir grínið í einni af sínum umdeildu teikningum.