Skoðun

Af­sakið, en hvað kostar þetta í kvenna-krónum?

Elín Hirst skrifar

Launamunur kynjanna er til vansa í okkar samfélagi og hægt virðist miða í jafnréttisátt hvað þetta varðar. Enn ein staðfestingin er ný kjarakönnun BHM um kynbundinn launamun þar sem í ljós kom að laun kvenna þurftu að jafnaði að vera 11,7 prósent hærri á síðasta ári til að vera jöfn launum karla.



Ef við notum tölurnar úr könnun BHM þá er fróðlegt að setja dæmið upp með öðrum hætti; tala einfaldlega um karla-krónur og kvenna-krónur. Því fyrir hverja eina krónu sem karlar fengu greidda fengu konurnar tæplega 90 aura fyrir sömu vinnu.



Þetta þýðir á mannamáli að þegar konur fara út í búð að versla fyrir launin sín þurfa þær í raun að greiða hærra verð en karlarnir fyrir hverja einustu vöru. Það sama á auðvitað við um öll önnur útgjöld konunnar.



Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að hún ætli að endurmeta þær aðferðir sem notaðar hafa verið í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna með það að markmiði að bæta árangur á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamuni kynjanna. Nýjustu tölur sýna því miður að alltof hægt miðar á þessu sviði. Ef til vill þurfum við að stíga djarfari skref, sem virkilega hrista upp í stöðnuðu kerfi og vekja fólk til umhugsunar. Mikilvægt í þessu sambandi er að minna stöðugt á þann óréttláta launamun kynjanna sem lifir svo góðu lífi í okkar samfélagi. Einnig hlýtur það að vera sjálfsögð krafa að allt sé opið og gagnsætt hvað launamun kynjanna varðar. Ein hugmynd væri sú að verslanir færu að verðmerkja vörur bæði í karla- og kvennakrónum til þess að glöggt megi sjá hvað varan kostar miðað við kaupmátt eftir því hvort kynið á í hlut. Þannig mætti hugsa sér að matvöruverslun verðmerkti 1 lítra af mjólk með tvennum hætti á 142 krónur eða 158 kvenna-krónur. Bílaumboð auglýstu: Fjögurra dyra fólksbíll, árgerð 2016 verð 5,2 milljónir eða 5,8 milljón kvenna-krónur.



Fasteignaauglýsingin hljóðaði: 3 herbergja íbúð í vesturborginni, verð 37 milljónir króna eða 41 milljón kvenna-krónur.



*Allar þessar tölur miðast við nýja kjarakönnun BHM á launamun kynjanna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×