Eftir frumsýningu voru haldnar pallborðsumræður þar sem leikstjórarnir og aðrir tengdir myndinni töluðu við gesti og svöruðu spurningum. Gleðin var mikil eftir sýningu eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi þar sem Högni Egilsson úr Hjaltalín stóðst ekki mátið og söng þjóðsönginn fyrir þá sem vildu heyra. Hann á einmitt titillag myndarinnar en Úlfur Eldjárn sér annars um tónlistina.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
Innsæi fjallar um það fyrirbæri sem titillinn vísar í. Hina óskilgreindu tilfinningu innra með okkur öllum sem mannkynið virðist vera treysta minna og minna á í heimi stöðugra tækninýjunga. Boðskapur myndarinnar er sá að heimurinn sé að fara í gegnum örari breytingar en nokkur sinni fyrr og því verði mannkynið að tileinka sér nýja, eða kannski öllu heldur gamla, tegund hugsunar sem felur í sér að treysta meira á innsæi.
Innsæi er skoðað út frá nokkrum hliðum, bæði vísindalegum og heimsspekilegum. Talað er við taugalífeðlisfræðinga, geðlækna og listamenn. Meðal annars er fylgst er með hópi breskra skólakrakka sem kennt var að takast á við stöðugt upplýsingaflæði nútímans með notkun núvitundar (e. mindfulness) og starfsemi heilans út frá taugalífeðlisfræði.
Sjá má stiklu úr myndinni hér fyrir neðan.